139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst ekki koma nægilega skýr svör frá hv. þingmanni um hvort hann styddi þá atvinnusköpun sem felst í þessu frumvarpi með að auka aflaheimildir úti á landsbyggðinni.

Hvernig mundi hann bregðast við ef útgerðarmenn í Vestmannaeyjum mundu ákveða í kvöld að flytja til Akureyrar með alla útgerð sína og byggðin stæði uppi með að allt sem hefði byggst á þeirri útgerð mundi hrynja? Ég vil vita hvernig hv. þingmaður vill bregðast við þeirri byggðaröskun sem verður þegar útgerðaraðilar á viðskiptalegum forsendum eða öðrum ákveða að færa sig um set og hin óheftu markaðslögmál ráða ferðinni. Hvernig vill hann bregðast við því og hvernig kemur stefna hans út í því sambandi?