139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að taka þetta í öfugri röð þá vakti ég einmitt athygli á áliti fjárlagaskrifstofunnar í máli mínu. Ég tel stóran galla á frumvarpinu, fyrir utan svo margt annað, hvernig útfærslan á úthlutun veiðigjaldsins á að vera. Mér finnst það allt saman hið einkennilegasta mál og mundi ekki geta stutt það frekar en svo marga aðra þætti í frumvarpinu.

Hvað varðar veiðigjaldið sérstaklega get ég lýst því yfir fyrir mína hönd, geri það svo sem ekki fyrir annarra hönd, að vel má velta fyrir sér hvernig veiðigjaldið eigi að reiknast og hvaða hlutfall eigi að gilda þar. Mér finnst sú hækkun sem boðuð er í frumvarpinu býsna brött. Mér finnst býsna bratt að taka 70% hækkun í einu skrefi. Í því sambandi megum við ekki gleyma því að sjávarútvegur skilar arði til þjóðarinnar með margvíslegum öðrum hætti heldur en beinlínis með veiðileyfagjaldinu, hann skilar sér í skattgreiðslum fyrirtækjanna sem starfa í greininni, í skatti starfsfólksins sem vinnur í greininni og í því að fyrirtæki í sjávarútvegi hafa umfangsmikil viðskipti við önnur fyrirtæki í landinu, kaupa þjónustu og vörur. Öflug sjávarútvegsfyrirtæki eru miklu líklegri til að kaupa mikið af vörum og þjónustu af öðrum og skila þannig peningum út í samfélagið. Það þýðir því ekkert að horfa bara á veiðileyfagjaldið eða veiðigjaldið eitt sem mælikvarða á það hverju sjávarútvegurinn skilar til þjóðarinnar. Það er mjög takmarkaður mælikvarði. En ég segi: Sú aðferð sem er notuð við að reikna veiðigjaldið og sú prósenta sem er notuð í dag er í mínum huga ekki heilagar tölur eða heilagar aðferðir. Mér finnst býsna bratt farið í þennan þátt.

Varðandi mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna verð ég að vekja athygli á því að niðurstaða hennar er ekki bindandi dómur (Forseti hringir.) fyrir okkur. Ég er ekki viss um að þær leiðir (Forseti hringir.) sem eru boðaðar þarna standist endilega þá mælikvarða sem sú ágæta nefnd (Forseti hringir.) leggur á það hvernig fiskveiðistjórnarkerfi (Forseti hringir.) eigi að vera uppbyggð.