139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:14]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það hjá hv. þingmanni að hér sé farið fram með nokkru offorsi í að breyta kerfi sem um margt er ágætt. Auðvitað þarf að skoða og reyna að sníða af þá galla sem menn hafa helst haft á hornum sér á síðustu árum, m.a. hafa þeir snúið að eignarhaldinu á þessari sameign þjóðarinnar, hvernig hægt væri að koma því fyrir. Mér hefur heyrst á umræðunni í dag að um það sé orðin ágæt sátt hjá öllum flokkum, að minnsta kosti þeim þingmönnum sem ég hef heyrt í í pontu í gær og dag. Það er þáttur og reyndar fleiri þættir sem ég held að menn hafi náð samkomulagi um en hafa deilt um áður.

Síðan er það veiðileyfagjaldið. Ég hef heyrt í nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og hv. þm. Árna Johnsen, þau tókust aðeins á um veiðileyfagjaldið og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað með þeim hætti að ég er ekki alveg klár á því hver stefna Sjálfstæðisflokksins er hvað varðar gjaldið, bæði réttmæti þess að leggja það á og útfærslur og reiknireglur og slíkt. Einnig hvað varðar hugmyndafræðina sem birtist í frumvarpinu. Nú tek ég ekki undir þá útfærslu um gjaldið verði fært beint til ákveðinna sveitarfélaga. Ég sé fullt af meinbugum á því.

Hugmyndafræðin um að hluti af gjaldinu renni til þeirra landsvæða sem auðlindin skilar af sér er í sama anda og ég minnist að var í lögum um þjóðlendur, að tekjurnar sem verða til í þjóðlendu skuli renna til uppbyggingar í þeirri sömu þjóðlendu, ef ég man rétt. Það er áhugavert að heyra álit þingmannsins á auðlindagjaldinu eða veiðigjaldinu, bæði réttmæti þess og eins hvernig (Forseti hringir.) það eigi að renna til viðkomandi landshluta.