139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:46]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Lengi hefur verið reynt að ná fram sátt í sjávarútvegsmálum á vettvangi stjórnmálanna. Lengi vel gekk það illa en sem betur fer náðist loksins árangur í sáttaumleitunum stjórnmálaflokkanna með niðurstöðum svokallaðrar sáttanefndar. Því miður var blekið varla þornað á sáttmálanum sem sáttanefndin kom sér saman um þegar ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur ákvað að segja sig frá samkomulaginu og svíkja það. Það er mikið áhyggjuefni að núverandi hæstv. ríkisstjórn og það fólk sem í henni er og hana styður skuli alltaf velja ófrið þegar friður er í boði. Það er alltaf að sannast betur og betur, virðulegi forseti, að íslenskir vinstri menn virðast vera þeirrar gerðar að mega ekki sjá hurð án þess að skella henni. Sú er raunin í þessu máli.

Það er engin sátt um frumvörp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það er skemmst frá því að segja að engir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, hvort sem þeir starfa við veiðar eða vinnslu, treysta sér til að styðja það frumvarp sem hér er til umræðu eins og það er lagt fram. Ef hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir getur bent mér á einhvern væri ég óskaplega þakklátur.

Við höfum séð ályktanir víðs vegar að af landinu. Ég get nefnt til dæmis ályktun frá Útvegsmannafélagi Þorlákshafnar og aðra frá Landssambandi smábátasjómanna. Við sjáum það í umsögnum frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum atvinnulífsins og Landssambandi íslenskra útvegsmanna að það er engin sátt um frumvörp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í dag bættist óvænt Már Guðmundsson seðlabankastjóri í hóp þeirra sem gagnrýna þetta frumvarp. Í formála hans við nýjustu útgáfu fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans segir meðal annars að hugsanlegar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu gætu veikt sjávarútvegsfyrirtæki og þar með rýrt verðgildi eigna viðskiptabankanna.

Ekki einu sinni Þórólfur Matthíasson prófessor er ánægður með þessi frumvörp.

Við höfum horft upp á það á síðustu dögum að það er meira að segja ágreiningur milli stjórnarflokkanna sjálfra og einstakra þingmanna innan þeirra um það hvernig eigi að útkljá þessi mál.

Það verður með öðrum orðum, virðulegi forseti, engin sátt í sjávarútvegsmálum á þeim grundvelli sem hér er til umfjöllunar. Ástæðan er sú að þessi frumvörp, ekki síst það frumvarp sem við ræðum hér, eru afleit bæði að formi og efni. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að það frumvarp sem við erum að ræða hér sé hrákasmíð sem einkennist af miðstýringu og sósíalisma og hrossakaupum milli ríkisstjórnarflokkanna um grundvallaratvinnugrein Íslendinga. Það er mikilvægt að menn átti sig á því að Ísland er verstöð, ekki fjármálamiðstöð. Þess vegna er mikilvægt að vanda til vanda í lagasetningu um stjórn fiskveiða. Slíku er hins vegar ekki til að dreifa í þessu frumvarpi.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa í umræðunni hér í dag og í gær farið ítarlega yfir fjölmarga vankanta og galla þessa frumvarps. Þeir hafa sýnt fram á að frumvarpið veikir greinina, rýrir afkomu hennar og grefur undan íslenskum sjávarútvegi, ýtir undir atvinnuleysi og veikir byggðir landsins. Á það hefur jafnframt verið bent að með þessum frumvörpum séu Íslendingar að færa sig í þá átt að taka upp fiskveiðistjórnarkerfi Evrópusambandsins á sama tíma og Evrópusambandið mjakast í þá átt að taka upp það fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum stuðst við.

Ég ætla svo sem ekki að fara nánar út í þessa þætti málsins, heldur ætla ég að víkja að þeim þáttum sem lúta að stjórnarskrá annars vegar og hins vegar framsali valds vegna þess að ég hef aldrei séð jafnmikið framsal valds frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins og í því frumvarpi sem við ræðum hér.

Þegar menn skoða þetta frumvarp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geta þeir ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að hæstv. ráðherra verður, verði þetta frumvarp samþykkt, helsti útgerðarmaður þessa lands. Í átta greinum frumvarpsins koma fram 17 reglugerðarheimildir til handa ráðherra. Honum er falið vald í öllum greinum frumvarpsins að tveimur undanskildum og önnur þeirra er gildistökuákvæði frumvarpsins. Það er reyndar erfitt að koma reglugerðarheimild fyrir í gildistökuákvæði frumvarpsins, að fela ráðherranum heimild til að ákveða í reglugerð hvenær lögin taka gildi, en menn hljóta að sjá hversu ofboðslegt valdframsal kemur fram í þessu frumvarpi. Ég gæti lesið þessar greinar upp, en ég ætla að spara mér það að þessu sinni.

Við skulum hafa það í huga, og það er mikilvægt að þingið geri það, að Hæstiréttur Íslands, æðsti dómstóll landsins, hefur margoft dæmt framsal löggjafarvalds ólögmætt í lagaákvæðum og lagabálkum sem hefur í miklu smærri mynd veitt framsal til ráðherra en birtist okkur í þessu frumvarpi. Ég leyfi mér að efast um að þetta frumvarp standist þær kröfur sem dómstólar og stjórnarskrá hafa gert í gegnum tíðina um framsal valds enda hefur jafnvíðtækt framsal líklega aldrei sést innan þessara veggja.

Meira um stjórnarskrána, ég hygg að það sé einsdæmi í þingsögunni að frumvarp til laga sé lagt fram á Alþingi af einum ráðherra í ríkisstjórn og að á sama tíma lýsi ráðuneyti annars ráðherra í sömu ríkisstjórn því yfir að frumvarpið brjóti líklega í bága við stjórnarskrá. Á bls. 12 í frumvarpinu þar sem gefur að líta umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir um auðlindarentuna, með leyfi forseta:

„Það kann því að orka tvímælis að almenn skattlagning á sameiginlega auðlind eigi að koma sumum landsmönnum meira til góða en öðrum eftir því hvar á landinu þeir búa, þar með talið þeim sem starfa við annað en sjávarútveg eins og á við um meiri hluta þeirra sem búa í sjávarbyggðum. Fram hafa komið ábendingar um að slíkt fyrirkomulag kunni að brjóta í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar en þó er engin umfjöllun eða rökstuðningur um það í greinargerð frumvarpsins.“

Þetta eru stór orð og það er magnað að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins sem heyrir undir hæstv. fjármálaráðherra, sem er formaður þess stjórnmálaflokks sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tilheyrir, skuli senda slíkt frá sér um stjórnarfrumvarp, hvað þá jafnmikilvægt stjórnarfrumvarp og það sem við erum að ræða um hér og þau stjórnarfrumvörp sem við munum ræða hér á næstu dögum sem varða grundvallarbreytingu á stjórnkerfi fiskveiða. Slíkar yfirlýsingar jafngilda yfirlýsingu hæstv. fjármálaráðherra sjálfs, Steingríms J. Sigfússonar.

Ég hlýt að spyrja hæstv. forseta: Hvers vegna í ósköpunum er hæstv. fjármálaráðherra ekki við þessa umræðu? Hvers vegna mætir hann ekki hér til að útskýra afstöðu ráðuneytis síns til þessa máls eins og það birtist í frumvarpinu sjálfu?

Ég leyfi mér að halda því fram að þetta sé algjört einsdæmi. Það er með fullkomnum ólíkindum að frumvarp sem er þannig úr garði gert og hlýtur slíka gagnrýni innan úr Stjórnarráðinu sjálfu sé lagt fram á þingi og að stjórnarmeirihlutinn ætlist til þess að hv. þingmenn taki slíkan tillöguflutning alvarlega þegar slíkar yfirlýsingar hafa komið frá æðsta manni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sjálfum fjármálaráðherranum. Það er ekki hægt að líta öðruvísi á en svo að þær yfirlýsingar sem fram koma í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins jafngildi öðru en yfirlýsingum hæstv. ráðherra. Hann er æðsti yfirmaður fjármálaráðuneytisins og allt sem frá því kemur er á hans ábyrgð.

Þá að auðlindagjaldinu. Við sjálfstæðismenn höfum fallist á að þeir sem nýti auðlindina greiði gjald fyrir afnot sín af henni. Það höfum við gert í öllum þeim deilum sem hafa átt sér stað í tengslum við sjávarútvegsmálin á umliðnum árum. En þetta frumvarp mælir fyrir um það að auðlindagjaldið eins og það er núna hækki um heil 70% frá því sem nú er. Þetta er rosaleg hækkun, ekki síst þegar haft er í huga að auðlindagjaldið er ekkert annað en landsbyggðarskattur, skattur á byggðir þessa lands sem fyrir standa höllum fæti. Á það hefur verið bent hér í umræðunni að ef menn vildu láta jafnræðissjónarmið gilda við skattlagningu á nýtingu auðlinda þýddi það það að yrði sambærileg breyting gerð og auðlindagjald vegna nýtingar á öðrum orkuauðlindum hækkað þyrfti Landsvirkjun að greiða um það bil 6 milljarða á ári í ríkissjóð fyrir framleiðslu sína og Orkuveita Reykjavíkur 1,5 milljarða. Eru menn tilbúnir til að fara út í slíka skattlagningu? Finnst mönnum eðlilegt að útgerðin þurfi að standa undir slíkri skattlagningu sem er miklu hærri hlutfallslega en aðrar atvinnugreinar þurfa að standa undir?

Þá kem ég að úthlutun auðlindarentunnar. Af hverju í ósköpunum á hún ekki að ganga til íbúa á höfuðborgarsvæðinu? Af hverju á hún bara að ganga til íbúa á landsbyggðinni? Eiga íbúar höfuðborgarsvæðisins minna tilkall til auðlindarentunnar? Eiga þeir ekki alveg jafnmikið í auðlindunum og landsbyggðarmenn? Eru borgarbúar og þeir sem búa á suðvesturhorninu annars flokks fólk í þessu sambandi? Er einhver stéttaskipting hvað þetta varðar hjá hinni norrænu velferðarstjórn? Getur það verið? Frumvörpin benda til þess.

Og af hverju má ekki úthluta gjaldinu til byggðarlaga þar sem skráðir eru frystitogarar? Frumvarpið mælir fyrir um það að í þeim byggðarlögum þar sem skráðir eru frystitogarar sé staðan sú að þau skuli ekki búast við því að njóta góðs af auðlindarentunni. Ég get nefnt Sveitarfélagið Skagafjörð sem dæmi um slíkt sveitarfélag, og hvernig ætlar hv. þm. Oddný Harðardóttir sem kemur úr Garðinum, þar sem skráður er frystitogari, að útskýra fyrir sínu fólki í Garði að það sveitarfélag fái ekkert út úr auðlindarentunni en nágrannasveitarfélögin fá bara vegna þess að það er skráður frystitogari í sveitarfélaginu? Hvað ætlar hv. þm. Björn Valur Gíslason að segja við Ólafsfirðinga þegar þeir spyrja hann hvers vegna Ólafsfjörður fái ekki sinn hlut í auðlindarentunni en Dalvíkingar fá hana væntanlega?

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að komast yfir alla þá galla sem eru á þessu frumvarpi. Ég vil segja hér að lokum að í umræðunni um sjávarútvegsmál er ég orðinn býsna leiður á því að menn standi hér og rífist um það hvort úthlutun aflaheimilda hafi verið sanngjörn þegar kvótakerfinu var komið á, líklega árið 1984. Þá var ég 11 ára gamall. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og aflaheimildir skipt um hendur. Þetta rifrildi skilar engu, en á því byggir þetta frumvarp. Við sjálfstæðismenn viljum sátt um stjórnkerfi fiskveiða. Við höfum lagt okkar af mörkum til að ná þeirri sátt og undirritað hana, en þá sátt hafa ríkisstjórnarflokkarnir svikið. Ástæðan held ég að sé sú að ríkisstjórnarflokkarnir vilja enga sátt vegna þess að þeir hagnast á því pólitískt (Forseti hringir.) að um sjávarútvegsmál (Forseti hringir.) séu deilur. Þeir ala á þeim deilum.