139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:42]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þeim friðartón sem kemur frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessu máli. Það eru einhvern veginn eru allt öðruvísi blæbrigði í málflutningi hans en til að mynda málflutningi hæstv. forsætisráðherra þegar kemur að breytingum á þessu kerfi. Hér er friðarins maður sem vill ræða hlutina með yfirveguðum hætti enda á þessi atvinnugrein það svo sannarlega skilið.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því, af því að hv. þingmaður Samfylkingarinnar, Magnús Orri Schram, mælti með því áðan að þetta mál færi inn í sumarið til frekari umræðu á meðan ég hef skilið hæstv. ráðherra svo að hann vilji reyna að klára minna málið áður en þingið fer heim, hvort hér sé um einhvern misskilning að ræða og hvernig þingflokkarnir hafi staðið að úttekt á málinu, því máli sem við ræðum hér, ekki stóra frumvarpinu. Stóð til af hálfu beggja þingflokka að klára þetta mál áður en þing færi heim eða, eins og hv. þm. Magnús Orri Schram nefndi hér, að vinna það lengra inn í sumarið?