139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

fundarstjórn.

[15:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég datt bara inn í þingsalinn og hafði ekki hugmynd um að það væri verið að biðja um utandagskrárumræðu. Yfirleitt sýna menn viðkomandi ráðherra þá kurteisi að láta hann vita af því.

Hins vegar vil ég bara segja það, svo það sé algjörlega skýrt, að ég er til í að taka þá utandagskrárumræðu hvenær sem er. Ef menn vilja taka umræðuna núna er ég til í það, (Gripið fram í.) bara til þess að klára það, en ég get það ekki eftir kl. fimm sökum annarra verkefna sem ég þarf að sinna. Þá liggur þetta algjörlega skýrt fyrir. (Gripið fram í.)

Eins og kom fram í máli nokkurra þingmanna er hins vegar verið að ráðast hér á hv. þingmenn Vinstri grænna fyrir að vera (Gripið fram í.) með einhverjum hætti ósamkvæmir sjálfum sér. Ég verð að koma þeim til varnar vegna þess að þeir hafa verið fullkomlega samkvæmir sjálfum sér. Afstaða þeirra til Atlantshafsbandalagsins lá fyrir þegar þessi ríkisstjórn hóf störf og það er algjörlega ljóst að afstaða þeirra til Líbíu hefur líka legið fyrir. Ég hef átt ágætar umræður yfir ræðustól Alþingis, t.d. við (Gripið fram í: Þið fenguð bara að ráða.) hv. þm. Guðfríði Lilju (Forseti hringir.) Grétarsdóttur, (Gripið fram í.) og það er ekkert verra fyrir mig að eiga þær samræður líka við hv. þingmann og formann Sjálfstæðisflokksins. Til er ég, núna ef menn vilja.