139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af því sem hv. þingmaður spurði mig um í sambandi við þá aflaaukningu sem hér er talað um, 2.400 tonn af þorski. Mér finnst hún hlægileg. Hefði ég haft einhver tök á því væri ég fyrir löngu búinn að bæta miklu meira við þorskvótann. Felld var tillaga frá þingflokki okkar sjálfstæðismanna hér í desember um að bæta 35 þús. tonnum við þorskkvótann. Það var engin áhætta tekin með því.

Það er ágætt að rifja það upp í þessari umræðu, eins og hv. þingmaður kom inn á, að það er 20% aflaregla í dag. Rökin fyrir því eru þau að þegar stofnarnir eru veikir þá ertu með lága aflareglu, ef stofnarnir eru sterkir þá ferðu með hana hærra, þess vegna upp í 23%. Þannig fundum við út þessi 35 þús. tonn. Hver í raun og veru var staðan? Það var verið að byggja þorskstofnana upp í fyrra. Þá ætlaði Hafrannsóknastofnun að byggja hann upp í 762 þús. tonn. Hver varð reyndin? Sjómenn sögðu hringinn í kringum landið, og allir sem eitthvert vit hafa á stöðu stofnanna: Þetta er langt undir því sem stofninn er. Síðan kom það líka í ljós, þegar Hafrannsóknastofnun fór, að ekki var búið að byggja þorskstofninn upp í 762 þús. tonn, þá var hann nefnilega 846 þús. tonn. Ég tel það vera ein af stóru mistökunum sem ríkisstjórnin hefur gert, og er nú af nógu að taka, að hafa ekki fyrir löngu verið búin að bæta við aflaheimildir.

Þorskurinn syndir í burtu, hann bíður ekki eftir því að menn komi og nái í hann þegar þeim hentar. Við höfum verið að byggja upp þorskstofninn fyrir aðrar þjóðir. Við sjáum aukninguna í Barentshafi. Menn hafa allt of litla þekkingu á þessu. Hann syndir yfir til Grænlands. Menn hafa orðið mjög varir við þetta á grálúðuveiðunum. En eigi að síður virðast menn ekki skilja mikilvægi þess að fara að framleiða, búa til störf, búa til verðmæti til að koma okkur út úr þessari kreppu og hætta þeirri skattpíningarstefnu sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Það er alveg sama hvað það er, heimilin og fyrirtækin, það eru allir skattpíndir. Auðvitað eigum við að veiða (Forseti hringir.) meira og framleiða meira, öðruvísi komumst við ekki upp úr þessari kreppu.