139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:20]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég vil í byrjun máls míns segja að ég er algjörlega á móti því að fara þá leið sem lögð er upp í frumvarpinu, að dreifa þessu aftur til byggðanna. Það getur verið mjög tilviljanakennt og það getur líka komið mjög ósanngjarnt niður á byggðunum. Augljóst er að staðir eins og Hveragerði, Selfoss, Egilsstaðir, svo ég nefni dæmi, munu aldrei geta notið auðlindagjaldsins ef þetta verður gert eins og hér er verið að leggja til.

Það lengsta sem ég hef komist í þessari hugmynd er að hægt væri að leggja kostnaðinn af Hafrannsóknastofnun, og þá ég líka við þróunarsjóðinn og nýsköpunarsjóðinn, á sjávarútveginn, og jafnvel hluta kostnaðar af Landhelgisgæslunni, það sem fer í að halda utan um auðlindina og gæta auðlindarinnar. Það mundi tvímælalaust létta kostnaði af ríkissjóði vegna þess að ríkissjóður borgar fyrir þessar stofnanir í dag. Ég mundi ekki vilja eyrnamerkja þetta á landshlutana. Aftur á móti mundi ég vilja gefa því miklu meira færi að það yrði byggt eitthvað upp í staðinn á stöðum sem vegna tæknibreytinga eða samþjöppunar verða fyrir því að missa t.d. fiskvinnslu eða slíkt, af því að það er algjörlega ljóst að við náum ekkert að halda uppi byggð í landinu með því að togast á um sömu fiskana.