139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:22]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilið svar. Mér finnst drengilegt af honum að segja nákvæmlega hvað honum býr í huga.

Þá langar mig til að spyrja þingmanninn annarrar spurningar. Það er spurningin sem allt þetta mál hverfist um fyrir mér. Í litla frumvarpinu og enn frekar í því stóra er verið að koma með breytingar á kerfinu, t.d. nýliðunina og alls konar takmarkanir, sem allar leiða til þess að arðurinn í fiskveiðum, auðlindaarðurinn eða umframhagnaðurinn, hverfur í sóun þannig að ekki verður hægt að innheimta auðlindagjald fyrir þjóðina, nákvæmlega eins og þingmaðurinn er að segja. Vill þingmaðurinn ganga í lið með mér (Forseti hringir.) og berjast á móti því að þetta kerfi verði gert óhagkvæmt gegn því að ég hjálpi honum að hækka auðlindagjaldið?