139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hæstv. ráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu var ein sú lélegasta sem ég hef heyrt hjá hæstv. ráðherra og er þó af nógu að taka. Sannfæringarkrafturinn var akkúrat enginn. Eini sannfæringarkrafturinn sem kom fram í máli hæstv. ráðherra var sami tónn og hæstv. ráðherra var með í lokaræðu sinni hér um hið svokallaða minna frumvarp þar sem hann fór yfir og hjólaði í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Hæstv. ráðherra er mikill talsmaður þess að skilja byggðir ekki eftir út undan og vitnaði í því efni í fjárlögin. Ég spyr: Hver er skoðun hæstv. ráðherra á því, gangi það eftir, að það verði tekið út í meðförum þingsins að ekki verði greitt út til sjávarbyggðanna? Getur hann staðið að því að auka skattlagninguna svona mikið á sjávarbyggðirnar ef það gengur ekki til baka með þeim hætti eins og hæstv. ráðherra hefur lagt hér til? Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur reyndar hakkað (Forseti hringir.) málið algjörlega niður. Hver er skoðun hæstv. ráðherra á þessu máli?