139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[14:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þyrftum auðvitað að hafa lengri tíma en hvort sína mínútuna til að skiptast á skoðunum um það hvað eru sérhagsmunir, hvað eðlileg viðskipti og hvað ekki. Það er auðvitað hægt að ræða það frekar.

Hv. þingmaður nefndi einnig að nýliðun væri engin og að það væri búið, væntanlega í þessum óeðlilegu viðskiptum, að skuldsetja alla greinina. Það hefur komið fram að sú er alls ekki raunin, um það bil 1/4 fyrirtækjanna er illa staddur og stærsti hópurinn er einmitt nýliðar sem hafa keypt sig inn í greinina á síðustu árum. Það eru akkúrat þeir sem verða fyrir mesta högginu af brölti stjórnarflokkanna í þessu frumvarpi því að það eru þeir sem verða skornir niður. Það er alltaf verið að tala niður til þeirra, hinna raunverulegu nýliða síðustu ára. Hinir geta ekki verið nýliðar. Það þyrfti að ræða og skilgreina orðið nýliði í þessum lögum. Hvað þýðir það? Mér þætti áhugavert að heyra hvernig búið væri að skuldsetja alla greinina og að nýliðun væri engin.