139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir ræðu hans því þar glittir í mikinn sáttatón. Meira að segja lagði hann til að frumvarpið yrði lagt til hliðar og það unnið í sumar og yrði síðan tekið fyrir á nýju þingi í októberbyrjun á þessu ári, þegar sumarþinginu er slitið þá tekur við nýtt þing.

Ég efast um að þetta sé kannski það sem þingmaðurinn var að meina því að hægt er að gera þetta strax núna og rjúfa þennan þingfund og hleypa þingmönnum heim í kjördæmi sín til að fagna sjómannadeginum. Það þarf ekki þessa umræðu á Alþingi til að sú vinna geti farið fram. Það er hægt að leggja þetta frumvarp til hliðar strax og hafa samráð í samfélaginu og aðilar geta lagt inn umsagnir í ferli með stofnun jafnvel nýrrar nefndar.

Hv. þingmaður fór yfir þá sátt sem náðist milli aðila fyrr í vor sem hæstv. forsætisráðherra kaus að splundra, fara með málið upp í loft eins og annað sem sá ráðherra kemur nálægt. Þegar ég heyrði af þeirri sátt sem hafði náðst þá kallaði ég það ekki einungis sáttaleið eins og þingmaðurinn, ég kallaði það þjóðarsátt því að eftir dómum Hæstaréttar má alveg skilja það svo að kvótinn sé orðinn eign þeirra sem nota hann, en þarna komu útgerðaraðilar og gáfu þetta eftir bótalaust vegna þeirrar sáttar sem var að myndast í samfélaginu.

Því langar mig í fyrra andsvari til að spyrja þingmanninn hvort það sé ekki jafnvænlegt að við ljúkum nú þessum umræðum um frumvarpið, setjum það aftur inn í sáttafarveginn sem myndaðist. Þá geta aðilar komið athugasemdum sínum að og við byrjum upp á nýtt 1. október næstkomandi.