139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

almenningsbókasöfn.

580. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almenningsbókasöfn.

Nefndin ákvað að taka málið aftur inn á milli 2. og 3. umr. til að bregðast við ábendingum um að ekki væri nægilega skýrt kveðið á í lögum um hvaða grundvöllur liggi fyrir annars vegar þjónustugjöldum á vegum almenningsbókasafna og hins vegar ýmiss konar sektar- og bótagreiðslum fyrir safnefni sem hefur glatast eða skemmst í meðförum notenda.

Það kom fram í umfjöllun nefndarinnar að óheimilt er að taka gjald fyrir afgreiðslu eða úrlausn stjórnvalda nema lagastoð sé fyrir hendi. Þessi meginregla byggist á þeirri grundvallarreglu stjórnsýslunnar að stjórnsýslan er lögbundin sem og að íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir verða almennt að byggjast á skýrri lagaheimild sem ekki verður skýrt rúmt. Þess verður að gæta við töku þjónustugjalda fyrir þjónustustarfsemi að gjald sé ekki heimt fyrir aðra þjónustu en lagaheimildin kveður á um. Ákvörðun um fjárhæð þjónustugjalda verður þannig að byggjast á traustum útreikningi á þeim kostnaði sem hlýst af því að veita umrædda þjónustu. Af þessu má sjá að það hefur grundvallarþýðingu að afmarka vel þá kostnaðarliði sem verða felldir undir þjónustugjaldið þegar meta á hversu hátt það á að vera. Með hliðsjón af þessu vill nefndin leggja til þær breytingar að afmarka nánar hvaða atriði falla undir þjónustugjöld almenningsbókasafna, og er kveðið á um það í breytingartillögu nefndarinnar að þau eigi að standa undir í fyrsta lagi launum starfsfólks sem sinnir þjónustunni og í öðru lagi sérstökum efniskostnaði vegna þjónustunnar.

Þessu nátengt leggur nefndin einnig til breytingar þar sem nánar eru afmarkaðar heimildir almenningsbókasafna til að taka gjöld fyrir sektir eða eyðileggingu á safnkosti. Þær skulu nema að hámarki innkaupsverði á viðkomandi efni. Þar er annars vegar um að ræða dagsektir sem eru óbein þvingunarúrræði þar sem mönnum er gert skylt að reiða af hendi fjárgreiðslur samkvæmt ákvörðun stjórnvalds þar sem þeir hafa látið undir höfuð leggjast að fullnægja ákveðinni skyldu sem á þeim hvílir. Í ljósi eðlis dagsekta sem þvingunarúrræðis leggur nefndin til þá breytingu að í 1. gr. frumvarpsins verði kveðið á um hámarksdagsektir, þ.e. að samanlagðar dagsektir fyrir afnot safnefnis fram yfir skilafrest megi ekki vera hærri en 4 þús. kr. fyrir hvern lánþega í hvert skipti. Jafnframt leggur nefndin í ljósi skýrleika lagaheimilda til nýtt ákvæði sem felur í sér breytingu á 15. gr. laganna þess efnis að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um innheimtu dagsekta og bóta vegna safnefnis sem glatast eða skemmist í meðförum notenda.

Gjörvöll menntamálanefnd stendur að baki þessu framhaldsnefndaráliti að undanskildum einum nefndarmanni sem var fjarverandi við afgreiðslu málsins.