139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú erum við nokkuð langt frá því marki að hafa náð að afnema öll höft og ég held að það sé leiðangur sem við þurfum að fara í í áföngum. Ég held að það sé alveg réttmætt að efast um það og velta því fyrir sér hvort það muni takast að afnema þau með öllu, hvort hér muni nokkurn tíma aftur verða sú fullkomna flotkróna sem var í aðdraganda gjaldeyrishrunsins sem varð áður en bankahrunið varð með þeim gífurlegu stöðutökum spekúlanta á báða bóga, með krónunni stundum og á móti henni stundum, þar sem menn tóku tugi milljarða í hvert sinn í gjaldeyrishagnað af stöðutökum sem auðvitað endaði sem reikningur á þá sem þurfa að búa við þennan lögeyri, þ.e. almenning í landinu. (Forseti hringir.)

Já, ég held að það megi búast við því að þetta verði ekki með (Forseti hringir.) sama hætti og áður.