139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að ef þessar upphæðir yrðu teknar einn góðan veðurdag út úr bönkunum gætu þeir í hefðbundnu bankakerfi lent í lausafjárvanda en nú er það svo að bankarnir eru fullir af krónum þannig að ég held að þetta eigi ekki að skapa mikla hættu.

Af því að hv. þingmaður fór á sinn glögga hátt yfir það hvar þessir peningar eru geymdir í bankakerfinu og Seðlabankanum og það er ekki nema um helmingurinn af peningunum, langar mig til að vekja athygli á hvar hinir, segjum 200 milljarðarnir eru staddir. Þeir eru einfaldlega í ríkisbréfum og bréfum hjá Íbúðalánasjóði og það er ljóst að ef menn ætluðu að selja þau á markaði einn, tveir og þrír mundi verðmæti bréfanna hrynja og þá mundu væntanlega einhverjir Íslendingar (Forseti hringir.) kaupa þau og græða á því og það gætu verið lífeyrissjóðirnir.