139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Jú, hann hefur rétt fyrir sér í því að ég er talsmaður vandaðrar lagasetningar.

Ég hef gagnrýnt mjög ráðherravæðingu þeirra frumvarpa sem þessi vinstri stjórn hefur komið fram með. Ég kalla það ráðherravæðingu og jafnvel embættismannavæðingu því að hlutverk Alþingis er fyrst og fremst að setja lög en ekki framselja það vald til ráðuneytanna, hvað þá heldur í Seðlabankann. Ég kom inn á þessar undanþágur í ræðu minni, að Seðlabankanum eru gefnar frjálsar hendur til að ákveða hverjir fá gjaldeyri. Á meðan hér er pólitískur seðlabankastjóri er það svolítið í ætt við kvótafrumvarpið góða sem nú er búið að taka af dagskrá eftir að útgerðarmenn krupu á kné fyrir framan ráðherrann. Ríkisstjórnin virðist leggja svipað til í þessu frumvarpi með því að gefa Seðlabankanum þetta alræðisvald.

Varðandi þá veltu sem fyrirtækin þurfa að hafa til að geta átt hér viðskipti er alveg makalaust. Það er hreint með ólíkindum að þar skuli vera sett föst prósentutala. Ég vona að ríkisstjórnin hafi það vit að hrekja ekki blómleg fyrirtæki úr landi en auðvitað skapast sú hætta þegar sett er eitthvert gólf eða þak, það er sama hvort við köllum það. Það eru nokkuð mörg frumvörp af því tagi sem komið hafa inn í þingið, t.d. frumvarpið um opinbert eignarhald varðandi upplýsingalögin, upplýsingaskylduna. Þar lenda sum fyrirtæki fyrir neðan og önnur fyrir ofan. Þá er lagasetningin farin að beinast að sérstökum fyrirtækjum. Samkvæmt stjórnarskránni er algjörlega óheimilt að beina löggjöf (Forseti hringir.) að einhverjum sérstökum aðilum.