139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[13:37]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þakka gott samstarf á vettvangi iðnaðarnefndar við að vinna að framgöngu þessa máls. Það var samhljómur í nefndinni um að vinna að úrbótum á mikilvægum ferðamannastöðum. Hér er um að ræða jákvætt skref til að dreifa ferðamönnum frekar í tíma og rúmi um landið og styrkja þannig heilsársferðamennsku á landinu.

Við uppbyggingu ferðamannastaða er mikilvægt að huga að hönnun mannvirkja sem verða reist á viðkvæmum náttúrustöðum og ég hvet því ráðherra til að huga sérstaklega að því í reglugerð sem tengist þessari löggjöf að við sitjum ekki uppi með óvandaðar skúrbyggingar eða gámastöðvar við okkar mikilvægustu náttúruperlur, heldur sé sérstaklega gætt að hönnun þessara mannvirkja þegar þau verða reist.