139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

áhrif frumvarps um stjórn fiskveiða.

[14:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum til meðferðar í þinginu svokallað minna frumvarp um sjávarútvegsmál sem mælt var fyrir í lok maí og hefur verið keyrt á alveg ótrúlegum hraða í gegnum þingið. Það var rifið út úr nefnd óunnið, eða hálfunnið vil ég segja, í gærmorgun.

Þetta er mjög umdeilt mál og hefur vakið hörð viðbrögð allra umsagnaraðila sem tjáð sig hafa um það, bæði þeirra sem nefndin óskaði umsagna hjá og líka annarra, t.d. lagasérfræðinga á þessu sviði, sem sent hafa nefndinni athugasemdir að eigin frumkvæði. Allar eru þær á sama veg, alltaf er varað mjög við afgreiðslu málsins á þessum nótum.

Það vekur athygli að í gögnum með frumvarpinu koma fram mjög alvarlegar athugasemdir frá fjármálaráðuneytinu og er þar ýjað að því að ákvæði í frumvarpinu geti stangast á við stjórnarskrá. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra í fyrsta lagi hvort það hafi ekki vakið athygli hennar og hvort henni hafi þótt eðlilegt að afgreiða í gegnum ríkisstjórn og þingflokka frumvarp sem fylgdu svo alvarlegar athugasemdir frá einu ráðuneytanna.

Í athugasemdum frá öðrum aðilum er sérstaklega tekið fram að menn óttist heildaráhrif frumvarpsins á atvinnugreinina. Hagfræðileg úttekt hefur ekki verið gerð. Hagfræðingar áttu að skila skýrslu í síðustu viku, hún er ekki enn komin. Þá var talað um að hún kæmi fram í lok þessarar viku. Hún er grundvöllur þess að hægt sé að gefa málinu faglega umfjöllun (Forseti hringir.) og fara yfir það. Ég vil inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvað líði þessari skýrslu.