139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[21:42]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það virðist vera orðin hefð fyrir því hin síðari ár á hinu háa Alþingi að ýmis frumvörp og leiðir séu kenndar við einhver tiltekin lönd. Fyrir örfáum sólarhringum síðan ræddum við um hina svokölluðu austur-þýsku leið sem er nafn sem hæstv. ríkisstjórnar um frumvarp til laga um gjaldeyrismál, eða svokallað gjaldeyrishaft, hefði verið gefið vegna þess að gjaldeyrishöftin sem hæstv. ríkisstjórn er að reyna að lögfesta minnir um margt á þá gjaldeyrispólitík sem praktíseruð var á sínum tíma í tíð austur-þýska alþýðulýðveldisins.

Fyrir allnokkrum missirum hófst síðan umræða hér á þinginu um það hvort taka ætti upp hina sænsku leið. Hún fól í sér breytingar á almennum hegningarlögum sem mælti fyrir um að kaup á vændi yrðu gerð refsiverð en sala ekki. Um það mál var töluvert mikið deilt á þinginu, líklega frá árinu 2005 eða 2006 til ársins 2009 eða 2010 þegar sænska leiðin var lögfest og innleidd á Íslandi, ef svo má segja, í íslenskan rétt og gefur nú að líta í almennum hegningarlögum. Það var í sjálfu sér ekki óeðlilegt að um þá leið sköpuðust töluverðar deilur á Alþingi vegna þess að fræðimenn greindi mjög á um hvort hagur vændiskvenna vænkaðist og yrði betri við lögfestingu þeirrar greinar og þeirra úrræða sem hún kvað á um eða ekki. Reynslan í Svíþjóð af þessu úrræði var blendin, ef svo má segja, og aðrar Evrópuþjóðir hafa ekki treyst sér til að lögfesta hana í landsrétti sínum þrátt fyrir að Norðmenn hafi um nokkurra ára skeið verið á þeirri línu. En það má svo sem segja, og það þekki ég eftir að hafa setið í Norðurlandaráði um tíma, að sænsk stjórnvöld ráku mikinn áróður fyrir sænsku leiðinni.

Á endanum varð niðurstaðan sú að hún var lögfest hér á landi og einhvern tímann kemur að því að stjórnvöld hljóta að taka til skoðunar hver reynslan af henni hefur orðið, hvort hún er góð eða slæm, hvort vændi hefur minnkað eða hvort úr vændi hefur dregið eða ekki eða hvort það hefur tekið á sig annað form en fyrir var, t.d. færst undir yfirborðið, eins og margir sem fjölluðu um málið á sínum tíma töldu að mundi gerast.

Hér er síðan til umfjöllunar enn önnur leið sem er hvorki austur-þýska leiðin né sænska leiðin, heldur austurríska leiðin svokallaða. Austurríska leiðin er það úrræði sem er meginefni þess frumvarps sem við ræðum hér, frumvarps til laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Með því er lagt til að sett verði ný lagaákvæði og mælt fyrir um það nýmæli að heimilt verði að vísa manni brott af heimili sínu eða dvalarstað ef rökstudd ástæða er til þess að hann hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta er á að slíkt muni gerast. Með öðrum orðum, ef uppi er rökstuddur grunur um að inni á heimili sé staddur ódæðismaður sem annaðhvort hefur framið eða er líklegur til þess að fremja gróf brot gegn öðrum heimilismönnum sé lögreglunni heimilt að vísa honum burt af heimili sínu.

Eins og segir í nefndaráliti allsherjarnefndar er markmið frumvarpsins að styrkja réttarstöðu brotaþolans enn frekar frá því sem nú er, þá sérstaklega þeirra sem mega þola heimilisofbeldi og ofsóknir. Heimilisofbeldi og ofsóknir eru hugtök sem eru tiltölulega víð, en fram kemur í 5. gr. frumvarpsins að vísað er til brota gegn 22.–24. kafla almennra hegningarlaga og/eða 108., 233., 233 gr. b, 253. og /eða 257. gr. almennra hegningarlaga. Ég ætla ekki að fara í gegnum öll þessi hegningarlagaákvæði en get þó staðfest að öll fjalla þau um mjög gróf brot sem varða þungum refsingum.

Það er kjarni þessa nýja úrræðis, þ.e. heimildir lögreglu til þess að fjarlægja brotamann af heimili.

Ég undirrita án fyrirvara það nefndarálit sem hér liggur fyrir, ásamt öðrum nefndarmönnum í hv. allsherjarnefnd. Ég var spurður hér á ganginum: Hvernig standa þessi mál hjá þér? Hvað með friðhelgi einkalífsins? Þarf ekki að vernda friðhelgi einkalífsins? Er eðlilegt að fest verði í lög ákvæði sem heimila að manni sé vísað út af eigin heimili?

Þegar slíkt er gert er það auðvitað þungbært fyrir þann sem í hlut á og skal ekkert lítið úr því gert að hér er um að ræða gríðarlega grófa íhlutun í málefni einstaklings vegna þess að heimilið er friðhelgt samkvæmt stjórnarskránni og friðhelgi einkalífsins á að njóta verndar. Það er eignarrétturinn sömuleiðis. Ég og flokksbræður mínir, a.m.k. flokksbróðir minn í hv. allsherjarnefnd, styðjum friðhelgi einkalífsins og viljum standa vörð um eignarréttinn, en það breytir því hins vegar ekki að við þurfum að búa við þá grundvallarreglu að friðhelgi eins á ekki að vera ríkari en réttur annars til persónufrelsis.

Einhvers staðar þarf að draga línuna. Ef rökstuddur grunur er uppi um að inni á heimili sé ofbeldismaður sem ætli að beita aðra heimilismenn grófu ofbeldi segir það sig sjálft að grípa þarf til einhverra aðgerða. Þá er spurningin: Er það ofbeldismaðurinn sem þarf að víkja af eigin heimili eða er það tjónþolinn, sá sem fyrir ofbeldinu verður eða hefur orðið eða er líklegur til þess að verða fyrir því? Við svörum því í nefndarálitinu að við teljum að þá sé eðlilegra að ofbeldismaðurinn sé fjarlægður af heimilinu frekar en fórnarlambið.

Mikil umræða hefur átt sér stað um austurrísku leiðina á hinu háa Alþingi á umliðnum árum, reyndar ekki jafnmikil umræða og um sænsku leiðina sem ég ræddi um áðan, en þó nokkur engu að síður. Þar hafa verið skiptar skoðanir um hvort eðlilegt sé að lögfesta heimild til handa lögreglu til að vísa ofbeldismönnum af heimilum sínum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þær tillögur hafa ekki hlotið náð fram að þessu. Ástæðan er kannski fyrst og fremst sú að þau frumvörp sem komið hafa til kasta þingsins og tekin hafa verið til umræðu hafa ekki uppfyllt ákveðin grundvallarskilyrði sem gera þarf í löggjöf til þess að tækt sé að lögfesta svo mikið inngrip í líf manna eins og úrræðið kveður á um.

Með því frumvarpi sem hér liggur fyrir er að okkar mati girt fyrir og helstu agnúarnir sem verið hafa á fyrri tillögum sniðnir af þeim, þannig að tillöguflutningurinn eins og hann birtist í frumvarpinu er heilsteyptari og betur formaður en áður. Þá er átt við að þrátt fyrir að samúð þeirra sem um þetta fjalla sé ekki mikil hvað varðar brotamanninn sjálfan sem vísa á af heimili við tilteknar aðstæður er mikilvægt að í löggjöfinni séu mjög ákveðin ákvæði varðandi málsmeðferð þegar gripið er til svo viðamikillar íhlutunar. Lögð er áhersla á það í nefndaráliti hv. allsherjarnefndar að gæta skuli meðalhófs við beitingu ákvæða frumvarpsins þannig að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er miðað við þær aðstæður sem uppi eru. Þá þarf að fara fram ákveðið hagsmunamat sem hvílir þá á þeim sem ákvörðunina tekur upphaflega, sem er lögreglustjórinn, síðan dómstólar.

Við meðferð málsins í nefndinni fór nokkurt púður í það hjá nefndarmönnum að fjalla um málsmeðferð í svona málum. Við fjölluðum nokkuð ítarlega um hana, en vert er að vekja athygli á því að verði þessu úrræði beitt er það lögreglustjórinn sem tekur ákvörðun um að vísa manni af heimili. Hafi slík ákvörðun verið tekin skal lögreglustjóri bera ákvörðun um beitingu úrræðisins undir dómstól til staðfestingar svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur sólarhringum eftir að ákvörðunin er tekin, ef ég man rétt. Það er auðvitað mikilvæg málsmeðferðarregla vegna þess að þó að fæstir hafi mikla samúð með ofbeldismanninum sem verður fyrir beitingu slíks úrræðis, leiðir það af meginreglum réttarfars og meginreglum þeirra mannréttindasáttmála sem við höfum undirgengist að sá sem þarf að sæta slíkum úrræðum, hversu slæmur sem hann kann að vera og hversu alvarleg afbrot sem hann hefur orðið ber að, á sinn rétt til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri gagnvart dómstólum. Sú málsmeðferð er tryggð í þessu frumvarpi. Það tel ég að sé mjög mikilvægt.

Sömuleiðis held ég að nefndin hafi komist að ágætri niðurstöðu varðandi miðlun persónuupplýsinga. Þegar gripið er til úrræða eins og þeirra að vísa manni af sínu eigin heimili vegna atburða sem eru svo alvarlegir að hann er ekki húsum hæfur og yfirvöld treysta honum ekki til að umgangast aðra heimilismenn, þurfa þær upplýsingar auðvitað að berast til þeirra yfirvalda sem að málunum koma. Ég tel að sú útfærsla sem fram kemur í nefndarálitinu, breytingartillögunum og í málinu eins og það er lagt upp af nefndinni, sé til ágætrar fyrirmyndar.

Það er ekki mikið meira um það að segja annað en að ég vil ítreka að við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd, ég og hv. þm. Birgir Ármannsson, styðjum þetta frumvarp og undirritum nefndarálitið. Ég hef alla tíð, frá því að þessi hugmynd kom fyrst fram og frumvarp um hana var fyrst lagt fram af þáverandi hv. þingmanni og fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra, Kolbrúnu Halldórsdóttur, haft skilning á hugsuninni og „sympatíu“ fyrir hugmyndinni sem slíkri. Ég held að núna hafi tekist vel að útfæra þetta úrræði í frumvarpinu þannig að sómi sé að, að úrræðið sé þess eðlis að hægt sé að beita því, vegna þess að eins og ég sagði áðan vegast á ýmis sjónarmið eins og friðhelgi einkalífs, eignarréttur þess sem í hlut á og síðan réttur fórnarlambsins eða fórnarlambanna sem frumvarpinu er ætlað að verja.

Ég tel að nú sé búið að koma þessum málum í ágætisform og ég finn ekki annað en það sé samstaða um málið á þinginu. Það verður svo fróðlegt í framhaldinu að sjá hvernig úrræðinu verður beitt. Við höfum haft ákvæði í íslenskri löggjöf um nálgunarbann þar sem heimilt hefur verið að meina einstaklingi sem haft hefur uppi ofbeldi eða hótanir gagnvart öðrum einstaklingum að eiga samskipti við þá sem hann hefur brotið gegn eða hefur misgert við. Í sumum tilvikum hefur gefist vel að beita því úrræði þó svo að það hafi í sjálfu sér ekki oft verið gert. En í öðrum tilvikum má segja að úrræðið henti ekki sérstaklega vel. Þar á ég t.d. við þegar upp koma deilur milli einstaklinga sem búa í litlu samfélagi, í litlu þorpi úti á landi eða í litlum bæ á landsbyggðinni, og einstaklingur er settur í nálgunarbann. Þá kann að vera býsna erfitt fyrir hann að lifa eðlilegu lífi í þeim bæ þar sem hann býr, sé brotaþolinn þar líka, sá sem viðkomandi hefur misgert við, vegna þess að á slíkum stöðum er kannski einungis ein kjörbúð, ein sundlaug, einn veitingastaður, ein sjoppa og ein bensínstöð. Það þýðir að sá sem þarf að sæta nálgunarbanni þarf að haga lífi sínu með töluvert breyttum hætti en áður var vegna þess að hann má ekki á sama tíma og sá sem misgert var við vera á sama stað og hann.

Auðvitað er þetta dálítið ýkt dæmi sem ég tek hér en það verður fróðlegt að sjá hvernig úrræðinu verður beitt. Vonandi mun það leiða til þess að réttarstaða þolenda ofbeldis, sérstaklega á eigin heimili, muni styrkjast og breytast til góðs fyrir þá og samfélagið allt, það hlýtur að vera meginmarkmið okkar allra að berjast gegn ofbeldi, ekki síst heimilisofbeldi.

Ég vil nota tækifærið að lokum og þakka samnefndarmönnum mínum fyrir ágætissamstarf í tengslum við þetta mál.