139. löggjafarþing — 154. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það eru ákveðin tímamót varðandi þorskstofninn okkar. Hann er að vaxa og það eru bjartar vonir. Það þýðir að það verður aflaaukning í þorski á næstu árum. Það eru margir ungir útgerðarmenn, litlar og meðalstórar útgerðir, sem hafa fjárfest í veiðiheimildum á undanförnum árum. Þær útgerðir hafa lent í miklum skerðingum. Nú ætlar þessi hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkarnir að koma þannig fram við þetta fólk að hirða af því aflaheimildirnar sem það var búið að kaupa sér nýtingarréttinn á og skilja það eftir með skuldirnar. Þetta fólk hefur ekki gert annað, virðulegi forseti, en að spila eftir þeim leikreglum sem stjórnvöld hafa sett. Svo er enn hoggið í sama knérunn vegna þess að á sama tíma eru bolfiskútgerðir í landinu sem hér um ræðir látnar borga brúsann fyrir félagslega kerfið. (Forseti hringir.) Það var tækifæri til að dreifa þeirri byrði en það komst ekki í gegnum meðferð hér á Alþingi. Það fór í gegnum ríkisstjórnarborðið og í gegnum ríkisstjórnarflokkana hingað inn og það var vitað að margir þingmenn (Forseti hringir.) úr stjórnarandstöðu mundu standa á bak við þá tillögu. Það komst samt ekki í gegn. Þessi aðför að þessu útgerðarmynstri á landinu er í (Forseti hringir.) boði núverandi ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokkanna, árás á litlar og meðalstórar [Kliður í þingsal.] útgerðir í þessu landi. (Forseti hringir.)