139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:25]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp. Þetta er í raun og veru umræða um einmitt ferlið varðandi lagasetningu. Við höfum ekki deilt þeirri skoðun að þingið sem slíkt ætti að semja öll lagafrumvörp en ég held að við getum orðið mjög sammála um að báðir aðilar þurfi að koma að því. Ég hef haft þann draum að þetta verði þannig að menn, hvort sem það er ríkisstjórn, stjórnarandstaða eða aðrir, leggi fram mál þar sem þeir hafa óskir um að taka upp ákveðin mál, þingið leggi fyrir forsendur varðandi málið, stefnumótunina og grunninn. Síðan fari það í vinnslu og svo komi það aftur til þingsins til úrvinnslu, umfjöllunar, umsagna o.s.frv. Ég hef sagt að margar af vönduðustu lagasetningum á Íslandi hafi verið þær þar sem skipaðir hafa verið þverfaglegir stórir hópar sem hafa unnið að undirbúningi og síðan kemur það inn í þingið og fær vandaða umfjöllun þar.

Ég þekki svo sem ekki langt aftur í tímann, er ekki búinn að vera lengi á þingi, en það hefur breyst þannig að meira er um breytingar í þinginu. Mér hefur stundum þótt svolítið sérkennilegt þegar menn hafa verið að kvarta yfir því að sum þingmál komi vanbúin. Við höfum leyft okkur meira að breyta því sem kemur inn í þingið frá stjórnvöldum og ég held að það sé gott. Ég held að menn fái ekki tilskipun um að það sé annaðhvort eða. Mörg frumvörp hafa verið bætt verulega í umfjöllun nefndar og það var kannski það sem ég var að draga fram hjá hv. félags- og tryggingamálanefnd að þar hefur verulega góð umræða verið þar sem öll sjónarmið hafa fengið að koma fram. Menn hafa leitað lausna sameiginlega og fundið bestu lausnina að mati nefndarinnar og leyst málið sameiginlega. Það er mjög til fyrirmyndar og maður vildi sjá það í fleiri málum.

Við deilum auðvitað þeirri skoðun að almennt séð getum við tekið á okkur sökina að mörg mál koma allt of seint fram, þ.e. þau koma fyrir lokafrest og síðan verður að afgreiða þau á skömmum tíma. Markmiðið hlýtur að vera að breyta því. Við höfum vissulega verið í óeðlilegu umhverfi að mörgu leyti síðastliðin missiri en markmiðið hlýtur að vera að dreifa þessu meira á árið þannig að menn hafi betri tíma og frumvörp komi inn, og þannig er það nú með sum þeirra, þau séu flutt aftur og fái þá vandaða umfjöllun í jafnvel eitt ár.