139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það, það er kannski það sem ég var að reyna að koma að í heldur löngu máli í ræðu minni áðan að það er að mínu viti ekki verið að gera tilraun til að búa til umhverfi til að skapa meiri sátt en verið hefur, þvert á móti.

Frumvarpið sem hér um ræðir er að mörgu leyti ágætt. Í því eru þættir sem maður hefði viljað hafa öðruvísi og sumt getur maður hugsanlega sætt sig við þótt maður gagnrýni það. En 4. gr. er þannig að ég a.m.k. get ekki sætt mig við hana. Mér finnst hún allt of opin og málið er sett í þann farveg að um það verður togast mjög mikið og barist. Með þessu er opnuð leið sem ég held að við sjáum ekki fyrir endann á eða hvernig muni í raun ganga upp.

Mér finnst ég ekki enn hafa fengið nægilega góð rök fyrir því af hverju greinin er höfð svona. Ég held að það væri vænlegra að það kæmu strax yfirlýsingar um að menn séu tilbúnir að skoða þetta með einhverjum hætti. Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi að það eru meiri líkur á að hægt verði að ná sátt um málsmeðferðarreglurnar en stóra málið sem mun koma inn á þingið í haust. En mér heyrist að tónninn sem gefinn er sé á þá leið að það eigi ekkert að reyna að ná sátt.