139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:07]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil í upphafi biðjast afsökunar á þessu orðabrengli hjá mér. Mér hefur verið bent á það af nýjum þingmanni á hinu háa Alþingi að það sé mismunandi hvaða merkingu menn leggja í orð. Til dæmis má nefna þetta nýja mál sem uppi hefur verið í umræðunni undanfarið um kínverskan landakaupamann, hann er karlkyns en aðstoðarmaður hans heitir Si Han en Han er hún, þannig að manni getur stundum orðið fótaskortur á tungunni.

Í ljósi þeirra upplýsinga eða afstöðu sem kemur fram hjá hv. þingmanni varðandi þá spurningu sem er grundvallarspurning í áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga, um hæfi nefndarmanna, og að því gefnu að afstaða hv. þingmanns sé rétt, er alveg ljóst að vinna úrskurðarnefndarinnar hlýtur að taka töluvert mið af þessu og umfangs þess starfs sem þar er unnið. Það er ljóst af þeim umsögnum sem við höfum fengið að menn kvíða þessum tímaþætti í ferlinu öllu, það verði þungt, kostnaðarsamt o.s.frv. Þó svo að ekki hafi verið lagt á það neitt mat er alveg ljóst í mínum huga að þessar úrskurðarnefndir alls staðar í íslensku stjórnkerfi núna eru að verða þröskuldur í vegi framfara hér á landi. Ég vildi inna hv. þingmann eftir því hvort hún geti ekki verið sammála mér um að það sé brýnt tilefni til þess að reyna með einhverjum hætti að einfalda ferlið allt saman. En eins og kemur fram í umsögn minni hlutans við þetta álit er það allt upp í tífaldur lögbundinn frestur sem úrskurðarnefnd mengunar- og hollustuhátta hefur tekið sér til að úrskurða um einstök erindi. Stjórnsýslan ræður ekki við þetta og við höfum á síðustu missirum verið að ganga frá nýrri löggjöf á þessu sviði sem mun enn auka á þyngslin og erfiðleikana hjá stjórnsýslunni (Forseti hringir.) til að höndla með þau mál sem Alþingi er að binda í lög.