139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

Landhelgisgæslan -- uppbygging á Grímsstöðum á Fjöllum o.fl.

[11:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil rétt í upphafi taka undir orð hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar. Ég ætla ekki að endurtaka þau sjónarmið sem þar komu fram varðandi Landhelgisgæsluna en ég vil líka minna á að enn er ólokið því verkefni að sameina Varnarmálastofnun og Landhelgisgæsluna og enn búa starfsmenn þessara stofnana, og þá sérstaklega gömlu Varnarmálastofnunarinnar, við þá gríðarlegu óvissu að vita ekki hvert framtíðarfyrirkomulag þeirrar starfsemi verður. Þetta er að verða ríkisstjórninni til mikillar hneisu.

Mig langar líka aðeins að blanda mér í umræðuna um fjárfestingu erlendra aðila og þá sérstaklega frá Kína á Grímsstöðum á Fjöllum. Ég fagna því að erlendir fjárfestar hafi áhuga á að fjárfesta á Íslandi vegna þess að ég hef satt að segja orðið mjög hrædd um það á undanförnum tveimur til þremur árum að erlendir fjárfestar hafi alls engan áhuga á að koma hingað. Hvers vegna? Vegna þeirra viðbragða sem allar þeirra hugmyndir hafa fengið. Það mátti ekki flytja inn sjúklinga til læknismeðferðar á einkasjúkrahúsi. Það voru einkaaðilar, það mátti ekki. Það mátti ekki setja upp viðhaldsstöð til að gera við óvopnaðar herflugvélar. Það var einkaframtak og þar að auki her, það mátti ekki. Hvaða skilaboð sendum við þegar menn hrökkva af hjörunum í hvert sinn sem erlendur fjárfestir kemur hingað? Það eru röng skilaboð. Ég er ósammála þeim.

Það er eitt sem hefur verið mikið rætt í umræðunni um Grímsstaði og það er stærð þess lands sem verið er að kaupa. Ég vil í því samhengi minna á að hér hefur verið unnið til margra ára að því að kortleggja allar þjóðlendur ríkisins, það land sem er sannarlega í almannaeigu. Það var farið af stað í þá vinnu (Forseti hringir.) til þess einmitt að skera úr um eignarhald. Ég aflaði mér upplýsinga um þetta í dag. Óbyggðanefnd er búin að afgreiða 67% af landinu, óbyggðanefndin er búin að afgreiða 86% af miðhálendinu. Af þeim hluta landsins sem óbyggðanefnd er búin að afgreiða (Forseti hringir.) er 49% þjóðlenda, þar með 51% eignarhald. Af miðhálendinu sem óbyggðanefnd er búin að afgreiða er 89% þjóðlenda en 11% eignarhald. Mestur hluti er … (Forseti hringir.)