139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

matvælaöryggi og tollamál.

[15:13]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ríkisstjórnin hefur í yfirlýsingu heitið því í tengslum við gerð kjarasamninga að beita sér fyrir lækkun vöruverðs, ekki síst matvæla, m.a. með lækkun tolla og vörugjalda. Tilgangur tolla á matvæli er sá að tryggja stöðu innlendra framleiðenda og matvælaöryggi til lengri tíma. Þessi stefnumótun birtist meðal annars hjá alþjóðanefnd um framtíð matvæla og landbúnaðar sem hefur einmitt lagt áherslu á að þjóðir heims eigi að vernda sína innlendu framleiðslu gegn þeirri hnattvæðingu sem sumir telja, m.a. Vandana Shiva sem hélt hér fyrirlestur fyrir fullu Háskólabíói á dögunum, að hafi markvisst grafið undan þeim aðferðum sem þjóðir beita til að auka efnahagslegt sjálfstæði sitt, t.d. tollvernd og innflutningskvóta.

Þegar þjóðir ákveða að beita tollvernd ber að sjálfsögðu að líta til þess hvaða framleiðslugreinar það eru sem þarfnast verndar. Innflutning og tollálögur matvæla á að takmarka af þeim vörum sem ekki er hægt að framleiða innan lands. Spurningin er hins vegar hvenær of langt sé gengið í því að vernda innlenda framleiðendur á kostnað neytenda sem eiga þeirra hagsmuna að gæta að geta keypt matvæli á viðráðanlegu verði.

Fáar þjóðir verja hlutfallslega meira fé til landbúnaðar en við Íslendingar og óvíða er rekin harðari verndarstefna með tilheyrandi tollum, kvótum og höftum. Heildarframlög ríkisins til landbúnaðar voru nálægt 11 milljörðum kr. á síðasta ári og við getum spurt okkur hvernig tollvernd og niðurgreiðslur hafi komið íslenskum neytendum til góða eða tryggt matvælaöryggi þjóðarinnar til lengri tíma. Það er ekki ýkja langt síðan í ljós kom að kjötbirgðir væru takmarkaðar í landinu, m.a. vegna þess að menn hafa flutt út íslenskt niðurgreitt lambakjöt í stað þess að setja það á innanlandsmarkað og láta neytendur njóta góðs af birgðastöðu (Forseti hringir.) með lægra vöruverði.

Frú forseti. Niðurgreiðslur (Forseti hringir.) og tollvernd eru mikill frumskógur sem tímabært er að (Forseti hringir.) einfalda, enda er þetta áhyggjuefni.