139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að æskilegt væri að fá svör við þessum spurningum. Málið er mjög einfalt, þetta er skjalfest, þetta er á þskj. 1750 frá 139. löggjafarþingi, það eru ákveðin gögn sem eiga að liggja fyrir. Á þeim forsendum var málinu frestað í vor og við áttum að fá þessi gögn áður en nefndafundir og þingfundir hæfust á ný.

Ég er ekki að gera lítið úr öðrum málum þegar ég segi að þetta mál sé mjög stórt. Það er alveg sama úr hvaða stjórnmálaafli hv. þingmenn koma, ég trúi ekki öðru en að þeir vilji fá þessar úttektir. Ég trúi því ekki að hv. stjórnarþingmenn ætli í alvöru að afgreiða málið án þess að vera komnir með þessar úttektir, það er fullkomlega útilokað. Þeir hefðu ekki skrifað undir samkomulagið öðruvísi, þeir hljóta að hafa verið að meina þetta.

Ég fer því vinsamlegast fram á það við virðulegan forseta að (Forseti hringir.) hún upplýsi þetta. Ég vil líka vekja athygli virðulegs forseta á því (Forseti hringir.) að miðað við klukkuna er ég nýbyrjaður. (Forseti hringir.) Ef ég kann á þetta þýðir þetta græna ljós að ég megi tala.