139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

breytingar á Stjórnarráðinu.

[11:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Tólfta mál á dagskrá þingsins í dag er frumvarp um Stjórnarráð Íslands. Þar stendur til að forsætisráðherravæða Stjórnarráðið allt og færa löggjafarvaldið í þessum málaflokkum undir Stjórnarráðið sjálft. Að mínu mati er það algerlega ótækt. Í frumvarpinu er m.a. lagt til að aðstoðarmenn ráðherra verði 23 á meðan löggjafinn er skilinn eftir fjárþurfi og ekkert gert til þess að styrkja stoðir Alþingis á móti. Það er eitt af því sem er mjög skrýtið í frumvarpinu.

Öllu alvarlegast er þó að fram kemur í frumvarpinu að leggja eigi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra niður með lögum. Ekki hefur tekist þrátt fyrir góðan vilja að víkja honum úr ríkisstjórn en mjög miklar líkur eru á að það hafi verið reynt og það hefur beinlínis komið fram í fjölmiðlum. Nú á að ganga þessa leið, málið er komið á dagskrá þingsins. Að vísu var það fellt í allsherjarnefnd og batt ég miklar vonir við að það kæmist ekki á haustþingið, sem stendur í nokkra daga, en hæstv. forsætisráðherra virðist leggja ofurkapp á að láta frumvarpið verða að lögum sem hefur í för með sér að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið verður sameinað einu atvinnumálaráðuneyti.

Þetta eru mjög alvarleg tíðindi, sérstaklega út af því að sjávarútvegsmálin eru undirstaða íslensku þjóðarinnar og eru afar gjaldeyrisskapandi og landbúnaðarmálin eru okkar eina von til að halda fæðuöryggi hér. Þessu skal fórnað vegna þess að Ísland hefur lagt inn aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Mig langar því að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra beint: Ætlar hann að styðja þetta frumvarp þegar það kemur til atkvæðagreiðslu í þinginu?