139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[17:56]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig nokkurt fagnaðarefni að hv. þingmenn úr flestum flokkum á Alþingi ræði um frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum með til þess að gera jákvæðum hætti. Það er nefnilega þannig að umræða um vatnamál, eignarrétt á vatni, vatnsréttindum, fyrirkomulag þeirra mála í lögum hefur verið eitthvert mesta þrætuepli íslenskra stjórnmála, a.m.k. á köflum, síðustu átta, níu eða tíu áratugi.

Það er út af fyrir sig ekki skrýtið vegna þess að með vatnalögum er verið að fjalla um gríðarlega hagsmuni, hagsmuni landeigenda af að fá að nýta það vatn sem fyrirfinnst á fasteignum þeirra, jörðum þeirra, hagsmuni ríkisins af nýtingu á þeim auðlindum og síðan og ekki síst hagsmuni almennings af aðgangi að vatni, ám og öðrum slíkum auðlindum.

Eins og allir þekkja áttu sér stað á Íslandi gríðarlegar deilur í upphafi 20. aldar um hvernig ætti að koma þessum málum fyrir í íslenskri löggjöf og þar skiptust á ekki bara skin og skúrir heldur skiptust menn í tvo flokka varðandi það hvernig þeim málum ætti að koma fyrir í löggjöfinni. Á þeim tíma, á árunum milli 1910 og 1920, var stofnuð svokölluð fossanefnd sem í áttu sæti ekki ómerkari menn en Bjarni frá Vogi og Einar Arnórsson, sem síðar varð þingmaður að því er ég hygg fyrir Íhaldsflokkinn, og hæstaréttardómari, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og síðar rektor Háskóla Íslands.

Deilurnar í fossanefndinni stóðu árum saman og þar var þrætuefnið fyrst og fremst það hvernig ætti að koma fyrir í löggjöf réttindum landeigenda gagnvart vatnsauðlindinni.

Niðurstaðan varð síðan sú sem við sjáum og sáum í lögum frá árinu 1923, vatnalögunum, þar sem málum var þannig fyrir komið að eignarréttindi landeigenda á þeim vatnsréttindum sem fyrirfundust í eignarlöndum voru undirorpin eignarrétti, voru talin upp í lögunum með svokallaðri jákvæðri skilgreiningu sem þýðir að hagnýtingarrétturinn var þar talinn upp. Þar var sem sagt tiltekið sérstaklega í hverju réttindin fólust.

Ég held að megi segja að vatnalögin frá 1923 séu með einhverjum merkustu lagabálkum sem hafa ratað inn í lagasafn Íslands og þau hafa staðist vel tímans tönn enda þar á ferðinni feikilega vönduð lagasetning sem auðvitað og engu að síður kallaði fram réttarágreining sem greitt hefur verið úr fyrir dómstólum. En ég held að enginn, sem hefur sett sig inn í þennan málaflokk, þetta svið eignarréttarins, deili um það að vatnalögin frá 1923 eru í grunninn einhver vandaðasta löggjöf sem unnið hefur verið að á Íslandi.

Í upphafi þessarar aldar, þ.e. árið 2006 ef ég man rétt, var lagt fram á Alþingi nýtt frumvarp til vatnalaga, það var annaðhvort á árinu 2005 eða 2006. Það frumvarp hafði það að markmiði að leysa gömlu vatnalögin frá árinu 1923 af hólmi. Í því frumvarpi var lagt til að skilgreining á vatnsréttindum og eignarrétti landeigenda á vatni í eignarlöndum sínum yrði færð úr því að vera jákvæð, eins og ég gat um áðan að var útfærð í vatnalögunum frá 1923, yfir í það að vera neikvæð, þ.e. lögð var til breyting á orðalagi eignarréttarákvæðisins en þeirri breytingu fylgdi í sjálfu sér engin efnisbreyting á því réttarástandi sem verið hafði frá því að vatnalögin frá 1923 voru sett.

Það frumvarp kallaði fram alveg gríðarlegar deilur á Alþingi. Menn skiptust í flokka milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Í ríkisstjórn á þeim tíma áttum við sjálfstæðismenn sæti með framsóknarmönnum og stjórnarandstaða þess tíma barðist harkalega gegn frumvarpinu. Það var gert á þeim forsendum að verið væri að einkavæða vatnið. Hér stóðu menn dag eftir dag og nótt eftir nótt — þá voru þingsköpin töluvert öðruvísi en þau eru núna — og rifust um það hvort þáverandi hæstv. ríkisstjórn væri að einkavæða vatnið. Og ég man eftir því að hæstv. núverandi innanríkisráðherra tók virkan þátt í þeim ræðuhöldum og fann því frumvarpi allt til foráttu.

Sú deila leystist aldrei. Við sem vorum fylgjandi frumvarpinu héldum því fram að með þeirri orðalagsbreytingu sem þar væri að finna væri ekki verið að ráðast í neina efnislega breytingu á því réttarástandi sem var komið á á árinu 1923 á meðan stjórnarandstaðan taldi að með frumvarpinu væri verið að einkavæða vatnið eins og sagt var. Niðurstaðan varð sem sagt sú á þeim tíma eftir harðar deilur að setja málið í salt, ef svo má segja, fresta gildistöku laganna, og skipuð var nefnd til að fara nánar ofan í málið og reyna að ná sátt milli stjórnmálaflokkanna um framtíðarfyrirkomulag þessara mála.

Það varð úr að þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, fékk það í sinn hlut að skipa nefnd sem síðar var kölluð vatnalaganefnd til að leggja fram tillögur um hvernig haga ætti þessum vatnamálum og nefndin skilaði af sér mikilli skýrslu í kjölfarið. Ætli það hafi ekki verið á árinu 2008. Ég átti sjálfur sæti í þeirri nefnd undir formennsku þáverandi hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar en í henni sátu einnig núverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, báðar fyrrverandi hv. þingmenn, ásamt fleiri aðilum t.d. Tryggva Agnarssyni og öðrum sem ég kann ekki að nefna.

Nefndin sendi frá sér skýrslu með tillögum um hvernig hægt væri að koma þessum málum fyrir og í kjölfarið voru lögð fram frumvörp á grundvelli skýrslunnar. Þau voru í sjálfu sér í ágætu samræmi við tillögur nefndarinnar en niðurstaðan varð sú að hrófla ekki við því eignarréttarfyrirkomulagi sem hafði viðgengist frá setningu laganna frá 1923.

Það fékkst hins vegar ekki eiginlegur botn í þetta mál þar til nú að það lítur út fyrir að þrætan sé nokkurn veginn á enda. Vegna þess að fyrir liggur frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum og ég fæ ekki betur séð en að þingmenn allra flokka á Alþingi skrifi undir nefndarálitið, einhverjir með fyrirvara, en engu að síður standa þingmenn allra stjórnmálaflokka að þeirri niðurstöðu sem kynnt er í nefndarálitinu. Það tel ég að sé gríðarlegt afrek hjá þeim hv. þingmönnum sem sæti eiga í hv. iðnaðarnefnd, einn þeirra situr hér í salnum í dag, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, og ekki síður er það afrek fyrir formann nefndarinnar, hv. þm. Kristján Möller. Þó svo að hann sé þingmaður stjórnarliðsins finnst mér ástæða til að hrósa hv. þingmanni, sem er formaður iðnaðarnefndar, vegna þess að menn mega þó eiga það sem þeir eiga. Í ljósi sögunnar og í ljósi þeirra deilna sem ég hef rakið er það að sínu leyti nokkuð mikið afrek að ná mönnum saman um niðurstöðu í eins mikilvægu máli og ný vatnalög eru.

Þegar ég renndi í gegnum frumvarpið og nefndarálitið verð ég að segja að það sem helst vakti áhuga minn var 3. gr. frumvarpsins og ég hafði mikinn áhuga á því að sjá hvernig hún væri útfærð.

Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta, um vatnsréttindi:

„Landareign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni eða stöðuvatni sem á henni er á þann hátt sem lög þessi heimila. Landeigendur sem hafa aðgang að sama vatni eiga sama rétt til þess í hlutfalli við þá nýtingu sem er gerleg á eða fyrir landi þeirra.“

Þetta er að mínu mati ljómandi fín grein og í skýringum og umfjöllun hv. iðnaðarnefndar um þetta mál í nefndaráliti meiri hlutans segir, með leyfi forseta:

„Í samræmi við markmið frumvarpsins verða ekki lagðar til neinar breytingar á inntaki og stöðu vatnsréttinda frá þeim grundvelli sem lagður var með vatnalögunum frá 1923 og mótast hefur í réttarframkvæmd á síðastliðnum áratugum.“

Þessi yfirlýsing er að mínu mati ákaflega mikilvæg. Hún þýðir að réttarstaða landeigenda er óbreytt frá því að vatnalög frá árinu 1923 voru sett. Það þýðir að vatnsréttindi í eignarlöndum eru undirorpin eignarrétti. Þannig hefur það verið frá árinu 1923. Um þetta atriði hefur margoft verið tekist fyrir Hæstarétti og réttarframkvæmdin er alveg skýr. Eignarrétturinn samkvæmt þessu frumvarpi er hreinn og klár.

Jafnframt segir í nefndarálitinu:

„Í 3. gr. frumvarpsins kemur fram sú meginregla að rétturinn til umráða og hagnýtingar á vatni sem er á fasteign tilheyrir þeirri fasteign á þann hátt sem lögin heimila. Ákvæðið felur í sér það sem kallað er jákvæð skilgreining eignarréttinda,“ — eins og ég nefndi áðan — „þ.e. að eignarráð landeiganda eru afmörkuð í lögunum sjálfum og hann hefur ekki aðrar heimildir yfir vatninu en lögin tiltaka sérstaklega. Hins vegar veita lögin landeiganda víðtækar heimildir til nýtingar og ráðstöfunar að teknu tilliti til þeirra takmarkana sem lögin setja. Einnig kemur fram í 3. gr. frumvarpsins að landeigendur sem hafa aðgang að sama vatni eiga sama rétt til þess í hlutfalli við þá nýtingu sem er gerleg á eða fyrir landi þeirra. Nefndin telur, í ljósi þess að ekki eigi að víkja frá hinni jákvæðu skilgreiningu vatnalaga á vatnsréttindum landeigenda, rétt að leggja til þá breytingu að landeigendur eigi eingöngu rétt til þeirra nýtingar sem lögin heimila en ekki þeirrar nýtingar sem sé gerleg.“

Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni er þetta að mínu mati ljómandi góð niðurstaða. Hún staðfestir það réttarástand sem hefur verið í landinu varðandi vatnsréttindi og réttindi landeigenda að vatni sem fyrirfinnst á fasteignum þeirra, staðfestir það réttarástand sem verið hefur frá árinu 1923. Það er ekki lítið mál, ekki síst í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem eru í húfi og einnig í ljósi þess að uppi hafa verið sjónarmið í íslenskum stjórnmálum og í íslensku samfélagi um að ástæða sé til að vinda ofan af þessu fyrirkomulagi með einhverjum hætti.

Þá vil ég nefna að landeigendur, ekki síst bændur, hafa átt í vök að verjast á síðustu árum, og líklega síðasta áratug, að verja réttindi sín og eignir í málaferlum sem þeir hafa átt í við ríkisvaldið. Þau málaferli hófust með setningu svokallaðra þjóðlendulaga og óbyggðanefnd hefur verið á ferðinni hringinn í kringum landið til þess að úrskurða hvaða lönd og hvaða réttindi teljist til eignarréttar landeigendanna og hver teljast til ríkisins. Með þjóðlendulögunum var því fyrirkomulagi komið á í íslenskum lögum að sá sem ekki gæti sannað eignarrétt sinn yfir ákveðnu landi gæti ekki gert tilkall til þess en að það land sem svo háttaði til um félli til ríkisins.

Um þessi þjóðlendumál hafa auðvitað verið gríðarlega miklar deilur á síðustu árum og missirum. Margir landeigendur og bændur hafa talið að ríkið hafi gengið of hart fram í kröfugerðum sínum gagnvart bændum. En nú er svo komið að búið er að setja flestar þræturnar niður hygg ég og landamerki orðin ljós. Þetta frumvarp er ef svo má segja ákveðið skref í þá átt að treysta réttarstöðu, a.m.k. undirstrika réttarstöðu landeigenda gagnvart þeim vatnsréttindum sem fyrirfinnast í þeirra löndum.

Ég vil fyrir mitt leyti, vegna þess að ég hef látið þessi mál mig miklu varða síðan ég tók fyrst sæti á þingi árið 2003, lýsa því yfir að ég er tiltölulega sáttur við þá þverpólitísku niðurstöðu sem fengist hefur í iðnaðarnefnd, sérstaklega varðandi 3. gr. frumvarpsins. Ég fagna henni og ég óska nefndarmönnum í iðnaðarnefnd til hamingju með að hafa loksins náð að leiða þessa miklu deilu í jörð vegna þess að þingið hefur eytt ómældum tíma í að rífast um þessi atriði.

Það eru vissulega fjölmörg atriði önnur í frumvarpinu sem ég hef ekki vikið að. Ég hef í rauninni bara talað um eina grein frumvarpsins og hugsanlega mun ég víkja að öðrum álitaefnum í síðari ræðum mínum um málið.