139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði hv. þingmann hvaða breytingartillögur þyrftu að ná fram að ganga til að hann teldi betur af stað farið en heima setið. Nú svarar hv. þingmaður því þannig að hann telji að allar þessar breytingartillögur þurfi að ná fram að ganga, bæði þær sem getur að líta í meirihlutaáliti allsherjarnefndar og einnig þær tillögur sem þingmenn Hreyfingarinnar hafa flutt.

Nú spyr ég hv. þingmann: Er stuðningur hv. þingmanns við þetta frumvarp skilyrtur því að þetta fari þannig fram, að breytingartillögur Hreyfingarinnar nái fram að ganga samhliða þeim breytingartillögum sem meiri hluti nefndarinnar hefur flutt?

Ég vek líka athygli á öðru. Hv. þingmaður sagði áðan að ef meiri tími hefði gefist til að ræða þetta mál spáði hann því að hægt hefði verið að ná meiri samstöðu um það. Er þá ekki skynsamlegast að láta þetta mál núna liggja í ljósi þess að við erum að tala hér um breytingar á sjálfu Stjórnarráðinu og reyna frekar að ná meiri sátt um málið? Það gerðist til að mynda árið 1969. Það mætti gera í stað þess að vinna í andarteppustíl sem nú er verið að gera, mál sem var undirbúið með hraklegum hætti eins og hv. þingmaður hefur sagt, (Forseti hringir.) og nefndinni síðan ætlaður knappur tími til þess að (Forseti hringir.) vinna úr mjög lélegu frumvarpi.