139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:42]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að menn geri einfaldlega of mikið úr þeirri veikingu löggjafarvaldsins sem falin er í þessari breytingu. Formaður nefndarinnar reifaði þann þátt málsins ítarlega og vel í máli sínu áðan og ég er í rauninni sammála því sem hann sagði. Ég hef ekki tíma í þessu andsvari til að ræða það ítarlega eða efnislega en þó að ákvörðunarvaldið um fjölda ráðuneyta og fjölda ráðherra sé hjá forsætisráðherra sjálfum liggur það að sjálfsögðu hjá ríkisstjórninni og þeim þingmeirihluta sem situr hverju sinni.

Það gerir stjórnskipanina einfaldlega snarpari ef forsætisráðherra þarf ekki að byrja á því, í upphafi hvers kjörtímabils, að leggja fram lagabreytingar fyrir þingið til að skapa það svigrúm í stjórnskipaninni sem lögmæt kjörin ríkisstjórn telur þurfa hverju sinni.