139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir andsvarið. Ég held að ég hafi farið ágætlega í gegnum það í ræðu minni að ef gera á mjög víðtækar breytingar þarf að liggja fyrir traust á milli manna. Þegar við lögðum fram tillögur okkar í stjórnarráðsnefndinni vorum við náttúrlega að vinna út frá því sem við þekktum. Þá höfðum við einmitt lagt mjög mikið upp úr trausti, ekki bara í því samstarfi heldur í samstarfi við aðra flokka líka. Sem dæmi vil ég nefna Steingrím Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sem ég tel að hafi skipt mjög miklu máli á sínum tíma hvað varðar þjóðarsáttina og að tryggja traust á milli manna. Ég nefndi fyrrverandi landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústsson, og ég get líka nefnt dæmi um fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, sem fóru í mjög (Forseti hringir.) viðamiklar breytingar á málefnasviðum sínum, komu í gegn breytingum sem vörðuðu allt samfélagið og (Forseti hringir.) gerðu það á grundvelli (Forseti hringir.) trausts. Það traust er ekki fyrir hendi núna.