139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir að koma upp og fara aðeins yfir málið. Hann ræddi ekki bara það sem snýr að dagskránni í kvöld, hann ræddi almennt um þingstörfin og það sem snýr að þessu haustþingi. Ég hvet hv. þingmann til að skoða til hvers menn ætluðu þennan stubb, eins og hann kallar haustþingið. Þá var að vísu betra skipulag á þingstörfum, það var allt annar bragur á þinginu, ekki sú óendanlega óstjórn sem er núna þar sem menn hafa ekki hugmynd um hvað gerist eftir hádegi, hvað þá síðar. Þegar menn náðu í undantekningartilfellum ekki að klára ákveðið mál skyldi það skoðað um sumarið og síðan teknir nokkrir dagar í að klára það einstaka mál. Hér erum við hins vegar í fullkomnu stjórnleysi. (Forseti hringir.) Enginn veit, allra síst (Forseti hringir.) hv. stjórnarþingmenn, hvað menn ætla með þetta haustþing eða (Forseti hringir.) hvernig menn ætla að vinna að þeim málum sem eru í gangi.