139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ekkert óeðlilegt að fram fari miklar umræður um þetta mál. Um það er mikill ágreiningur. Fyrir liggur að hugsanlega eru tveir ráðherrar algjörlega mótfallnir málinu. Málið nýtur ekki meiri hluta ríkisstjórnarflokkanna eða gerði það alla vega ekki þegar það var rætt í 1. umr. Á sama tíma er ekkert óeðlilegt, og ég veigra mér ekki við það, að vera á kvöldin og ræða mikilvæg mál. En þegar við ræðum mál sem er svona gjörsamlega vanbúið og gríðarlegur ágreiningur um það, þegar fjöldamörg góð mál liggja fyrir, er ekki óeðlilegt að spurt sé hvenær (Gripið fram í.) ætlunin sé að slíta fundi í kvöld.

Við gætum líka brugðið á það ráð að taka þetta ágæta mál af dagskrá og ræða þau mál sem skipta raunverulega máli, eins og t.d. það að Íbúðalánasjóður fái heimild til (Forseti hringir.) að veita óverðtryggð lán.