139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta þótti mér mjög merkileg ábending. Ég hafði ekki heyrt af þessu áður og velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi upplýst það að skýrsla nefndar hæstv. forsætisráðherra sem send var til þingmannanefndar hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á niðurstöður nefndarinnar. Í ljósi þess sem við höfum verið að ræða hér í dag er ég dálítið hræddur um að það kunni að vera rétt að hæstv. forsætisráðherra hafi meira að segja reynt að fjarstýra þingmannanefndinni og hafa áhrif á hvaða niðurstaða kæmi úr þeirri nefnd sem átti einmitt að finna út úr því sem hv. þingmaður spurði mig að áðan: Hvernig getum við breytt þessu? (Gripið fram í.) Í stað þess að sú nefnd fengi að starfa óáreitt og skila niðurstöðum um hvernig mætti efla þingræðið án utanaðkomandi áreitis skipaði hæstv. forsætisráðherra nefnd til að varpa djúpsprengju inn í það starf. Ég er bara undrandi á að þetta skuli ekki hafa verið meira rætt á fyrri stigum.