139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands. Mikið hefur verið rætt um það undanfarin missiri að þörf sé á því að fara í breytingar á Stjórnarráðinu og hefur verið unnin talsverð vinna tengd því, þ.e. við höfum hér skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem okkur birtast mjög margar athugasemdir og ábendingar um það sem betur má fara um stjórnsýsluna og Stjórnarráðið. Eins var unnið í þinginu mikið starf í þingmannanefndinni svokölluðu þar sem ég sat ásamt átta öðrum hv. þingmönnum þar sem lagðar voru fram ákveðnar tillögur og bent á atriði sem þyrfti að bregðast við í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Svo virðist af lestri greinargerðarinnar með frumvarpi þessu sem horft sé til þeirra gagna þegar þetta frumvarp er skrifað.

Ein af meginniðurstöðum skýrslunnar frá rannsóknarnefnd Alþingis er að helsti veikleiki íslenskrar stjórnsýslu hafi verið skortur á samhæfingu þeirra stjórnvalda sem störfuðu hér fyrir hrun á sviði efnahagsmála. Síðan er harkalega gagnrýndur skortur á formfestu innan stjórnsýslunnar og í rauninni gert mikið úr því að eftirlit hafi brugðist. Þannig segir á bls. 10 í skýrslu þingmannanefndarinnar, með leyfi forseta:

„Þingmannanefndin telur mikilvægt að ítreka ábyrgð fagráðherra á eftirliti með störfum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Ráðherra ber að tryggja að stofnanirnar sinni hlutverki sínu og Alþingi ber að hafa eftirlit með ráðherrum.“

Þarna er stórt atriði sem er gegnumgangandi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, margoft bent á, og eins í skýrslu þingmannanefndarinnar. Þess vegna hefði ég talið að sá þungi sem er á þetta atriði sérstaklega í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis mundi birtast okkur í því plaggi sem hér liggur frammi.

Þegar skýrslan frá rannsóknarnefnd Alþingis kom fram var ljóst að hugmyndin yrði að ráðast í umfangsmiklar breytingar á íslenskri stjórnsýslu og stjórnkerfi okkar. Ég taldi að vönduð vinna mundi fara fram við það og að þá yrði að sjálfsögðu stuðst við þetta mikla plagg. Eitt af þeim atriðum sem er hvað minnisstæðast úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er þegar fjallað er um að svo virðist sem þeir aðilar sem hér stjórnuðu hafi bent hver á annan varðandi ábyrgð og að enginn hafi áttað sig á að ábyrgðin væri þeirra. Þess vegna vakti talsverða undrun mína þegar ég fór að skoða þetta að lesa IV. kafla þessa frumvarps, kaflann sem fjallar um stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra. Að mínu mati er hann talsvert rýr og kemur ekki til móts við þær athugasemdir sem ég hef talað um.

Við sem störfuðum í þingmannanefndinni litum á það sem verkefni okkar að fara yfir skýrslu rannsóknarnefndarinnar, draga fram hvað það væri í þeirri skýrslu og niðurstöðum hennar sem draga þyrfti lærdóm af. Síðan þyrfti að fara í að breyta lögum og benda á hvaða lögum þyrfti að breyta til að girða fyrir að hlutir eins og þeir sem taldir eru upp í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis gerðust aftur. Það var nálgunin sem við höfðum á þetta verkefni og afraksturinn liggur hér fyrir, þ.e. hér er tillaga um með hvaða hætti eigi að breyta lögum um Stjórnarráð Íslands. Að mínu viti er markmiðið að taka á þeim atriðum sem okkur ber að draga lærdóm af vegna þeirra atburða sem hér urðu og reyna að bæta lagaumhverfið á þann hátt að slíkir hlutir gerist ekki aftur. Hér voru gerð ýmis mistök, það vantaði sterkari lagaheimildir og skýrari umgjörð á mörgum sviðum og ég taldi að hér væri þá komin tilraun til að skýra þau atriði.

Ég ætla að einbeita mér fyrst að IV. kafla, um stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra. Það er mjög athyglivert að lesa greinargerðina um þennan kafla. Það er eins og menn átti sig á því að þetta er ekki sérstaklega skýrt eins og þetta birtist okkur í tillögum að lagatexta. Þá er ég að tala um 13., 14. og 15. gr. frumvarpsins. Þessar þrjár greinar fjalla um eftirlit. Hér kemur fram í 13. gr., með leyfi forseta:

„Ráðherra skal hafa eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum á vegum stjórnvalda sem heyra undir almennar stjórnunarheimildir hans.

Ráðherra skal enn fremur hafa almennt eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum þeirra sjálfstæðu stjórnvalda sem heyra stjórnarfarslega undir hann. Eftirlit með sjálfstæðum stjórnvöldum tekur ekki til einstakra ákvarðana þeirra.“

Gott og vel.

Í greinargerðinni segir síðan, með leyfi forseta:

„Í lögum er ekki að finna afmarkaða lýsingu á inntaki almennra yfirstjórnunarheimilda ráðherra.“

Það hefur talsvert verið fjallað um að ekki sé skýrt í hverju þessi stjórnunarheimild ráðherra felist. Síðan er gerð tilraun í texta í greinargerðinni til að lýsa í grófum dráttum hvert inntak þessara heimilda er. Í þeirri yfirferð kemur fram að þetta sé ekki allt saman á hreinu. Ég tel að þessi kafli frumvarpsins sé einfaldlega vanbúinn. Vissulega er í greinargerð gerð tilraun til að fara yfir hvað felst í stjórnunarheimildum en engu að síður kemur fram að hér sé eingöngu verið að lögfesta meginreglur sem þegar sé farið eftir í íslenskri stjórnsýslu en ekki verið að breyta gildandi fyrirkomulagi á nokkurn hátt.

Flestir sem töluðu um málið á Alþingi fögnuðu því að rannsóknarnefnd Alþingis kæmist að ákveðinni niðurstöðu um hvaða atriðum þyrfti að breyta en síðan þegar frumvarp kemur fram til að koma til móts við það sem þarf að laga er ekki talin ástæða til að breyta neinu. Þá spyr maður sig: Hvað hafa menn lært? Eru menn einfaldlega að leggja þetta frumvarp fram til að geta krossað við að búið sé að leggja fram frumvarp um breytingar á Stjórnarráðinu? Eða er einhver hugur sem fylgir máli um að breyta lagaumgjörðinni á þann hátt að við náum að grípa þau atriði sem eru ekki nægilega skýr í lögum og laga þau? Ég óska eftir því að þeir hv. þingmenn sem eru stuðningsmenn þessa frumvarps og leggja fram þetta ítarlega nefndarálit útskýri fyrir mér með hvaða hætti umræða um þessi atriði sérstaklega fór fram í allsherjarnefnd. Að mínu viti eru þessi atriði þungamiðjan í þeirri gagnrýni sem okkur birtist í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Auðvitað er fjallað um ábyrgð ráðherra í ráðherraábyrgðarlögum og það kemur fram í textanum sem ég vitnaði til í skýrslu þingmannanefndarinnar að ráðherra ber að tryggja að stofnanir sinni hlutverki sínu á Alþingi og beri síðan að hafa eftirlit með ráðherrum. Vissulega verður að taka á einhverjum af þessum atriðum. Við erum að breyta þingsköpum á þann hátt að hér verður í þinginu sérstök eftirlits- og stjórnskipunarnefnd sem ber þá að hafa þetta eftirlit með ráðherrum, en ég get ekki séð að fyrra atriðinu sé mætt, þ.e. að við fáum eitthvert tæki til að tryggja að ráðherra beri að tryggja að stofnanir sinni hlutverki sínu. Ég get því miður ekki séð það og það er galli á málinu.

Hins vegar er þetta mál, frú forseti, ekki með öllu slæmt. Hér er gerð tilraun til að nálgast ýmis atriði en það er einfaldlega ekki að mínu viti búið að vinna þetta nógu langt. Það er svolítið verið að fara eins og köttur í kringum heitan graut og ég held að það sé betra að hugsa þetta mál einfaldlega betur, taka það aftur inn í nefndina og fara betur í einstök ákvæði en setja ný lög sem eru ekki til þess fallin að við fáum það tæki í hendurnar sem við þurfum til að ná einhverjum árangri. Nú er ár síðan þingmannanefndin skilaði af sér, rúmt ár síðan rannsóknarnefnd Alþingis skilaði af sér og mönnum eru hálfgerð vonbrigði að ekki sé búið að vinna málin nánar en þetta.

Síðan langar mig, frú forseti, að gera aðeins að umtalsefni vinnulagið við gerð þessa frumvarps. Nú er ég margbúin að segja að þessi tvö plögg liggja hér til grundvallar og þá aðallega skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis. Þegar frumvarpið kemur fram vantar inn í það mjög skýrar tillögur sem þingmannanefndin hafði dregið fram úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að þyrfti að breyta í lögum. Allsherjarnefnd fer sem betur fer af stað og bætir aðeins í með fjölmörgum breytingartillögum. Þá vekur sérstaka athygli að þegar við í þinginu höfum talað fyrir því að þingið eigi að verða sjálfstæðara gagnvart framkvæmdarvaldinu og að þingið eigi að hafa forgöngu um að fylgja eftir þeim tillögum sem birtast í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og frá þingmannanefndinni komi hér fram frumvarp sem er unnið af forsætisráðuneytinu og það vanti inn í það atriði sem þurfa augljóslega að að vera inni, eins og þetta um trúnaðarmálabókina. Það er tiltölulega einfalt atriði og hreinlega mjög furðulegt að það hafi ekki ratað inn í upphaflega frumvarpið. Það kveikir hjá manni spurningar um hvernig þetta hafi eiginlega verið unnið. Jú, það er settur af stað einhver hópur sérfræðinga af hálfu forsætisráðuneytisins til að undirbúa breytingar á Stjórnarráðinu og það er svo sem allt í lagi ef menn hafa þessar tvær skýrslur sem vinnuplagg og grundvöll að því sem verið er að gera. Þá á ég við í alvörunni, að menn byggi virkilega á þeim grunni en segist ekki eingöngu vera að byggja á þessum grunni, að þess sjái svo stað í þeim plöggum sem eru afrakstur vinnunnar.

Ástæðan fyrir því að þessar spurningar kvikna er augljós. Þegar við í þingmannanefndinni vorum að vinna með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis stofnaði forsætisráðherra vinnuhóp sérfræðinga til að fara yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og koma með tillögur um það með hvaða hætti stjórnsýslan þyrfti að bregðast við. Að mínu mati, og ég man eftir umfjöllun og viðbrögðum okkar í þingmannanefndinni við þessum vinnubrögðum forsætisráðherra, var þarna um að ræða tilraun til íhlutunar af hálfu forsætisráðherra í störf þingmannanefndarinnar. Þetta var til umfjöllunar í fjölmiðlum meðan á þessu stóð. Ég verð að segja, frú forseti, að hér kannast ég við þessi sömu vinnubrögð. Hér er aftur sett af stað vinna af hálfu forsætisráðuneytisins sem skilar síðan þeim árangri eða þeirri afurð að unnið er frumvarp þar sem skýrsla þessara sérfræðinga virðist lögð til grundvallar en síðan gleymist einhvern veginn að ræða þær meginniðurstöður og þá gagnrýni sem kemur fram í rannsóknarskýrslu Alþingis eins og þann þátt sem ég minntist á áðan um eftirlitið. Þessi vinnubrögð stangast að mínu mati á við þann anda sem ríkti í þinginu fyrir ári þegar alþingismenn sem hér tóku til máls um skýrslu þingmannanefndarinnar höfðu uppi stór orð um að nú skyldi auka sjálfstæði þingsins og að þingið mundi leiða þá vinnu.

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að láta hjá líða að fara aðeins í einstök önnur ákvæði þessa frumvarps sem er ekki með öllu slæmt, eins og ég hef áður sagt. Það er ákveðin viðleitni í þá átt að taka utan um einhver þeirra atriða sem út af standa. Breytingartillaga við 4. gr. frumvarpsins vekur athygli mína þar sem fram kemur á breytingartillögunum frá meiri hluta allsherjarnefndar að fyrri málsliður 2. mgr. 4. gr. falli brott, þ.e. hér átti að koma inn, með leyfi forseta:

„Hvert ráðuneyti skal óskipt lagt til eins og sama ráðherra.“

Þessi málsliður á að falla brott miðað við breytingartillögur meiri hluta allsherjarnefndar.

Hvað þýðir þetta eiginlega? Ég verð að kalla eftir nánari útskýringum frá þeim ágætu meðlimum í allsherjarnefnd sem ég sé að eru við umræðuna. Hver er rökstuðningurinn að baki því að þetta eigi að falla brott? Á til dæmis að deila samgönguráðuneytinu undir fleiri ráðuneyti eða hver er hugsunin þannig að maður nái einhvern veginn að skilja hvað átt er við með þessari breytingartillögu? Það hefur verið gert hér á landi og þekkist að fleiri ráðuneyti eru lögð undir einn ráðherra, þ.e. að einn og sami maðurinn stýri fleiri en einu ráðuneyti. Maður þekkir það. En hvað þýðir þessi breytingartillaga? Það væri ágætt að fá smáútskýringu á því af því að ég veit að hv. þingmenn í allsherjarnefnd hlýða á mál mitt. Þetta var minni háttar atriði sem ég mundi vilja fá útskýringar á.

Síðan er í 11. gr. frumvarpsins fjallað um samskipti. Það er jafnframt breytingartillaga frá meiri hluta allsherjarnefndar og hér segir, með leyfi forseta:

„Færa skal skrá um samskipti og alla fundi milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess.“

Það er ágætt að skrá þessi samskipti vegna þess að við ættum að hafa dregið þann lærdóm af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að það er mikilvægt að halda formfestu í samskiptum milli ráðuneyta, sérstaklega þegar kemur að erfiðum tímum þar sem hlutirnir gerast hratt og menn þurfa að átta sig á því í hvaða röð hlutirnir gerast og hverjir eru búnir að tala við hvern. En með hvaða hætti á þetta að gerast og hver er skilgreiningin í þessu sambandi á orðinu samskipti? Það væri gott að fá skýringu á því vegna þess að auðvitað er hægt að fara í að skrá símtöl, það er hægt að skrá öll bréfaskipti, alla formlega fundi — en erum við líka að tala um óformlega fundi, óformlegt spjall? Um hvað er verið að tala?

Síðan er athygliverð 12. gr. í þessu frumvarpi sem er einmitt í IV. kafla um stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra. Í 3. mgr. kemur fram, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að láta í té óbindandi álit sem þýðingu geta haft til leiðbeiningar fyrir stjórnarframkvæmd á málefnasviði hans, enda leiði ekki af lögum eða eðli máls að honum sé það óheimilt.“

Til að reyna að glöggva sig á því hvað átt er við með „óbindandi álit“ fer maður að sjálfsögðu í greinargerðina og les sér til. Ég verð að segja, frú forseti, að þá fyrst kvikna spurningar um hvað átt sé við. Það er líka fjallað um þetta atriði í áliti 1. minni hluta allsherjarnefndar, það er erfitt fyrir ráðherra að gefa álit á hinum og þessum málum sem heyra til dæmis undir stofnanir sem eiga að taka stjórnsýsluákvarðanir í einhverjum ákveðnum málum. Þá er ráðherrann farinn að hlutast beint til um einhverjar einstakar ákvarðanir en þarna er væntanlega ekki átt við slík mál. Síðan er mjög erfitt fyrir ráðherra að vera með formleg álit á einhverjum málum sem hugsanlega eru kæranleg, þ.e. þannig að ráðherrann eigi á hættu að gera sig vanhæfan í málum með því að gefa út slík álit. Ég þykist vita að hér sé verið að sækja fyrirmynd erlendis frá en mér finnst eins og ekki sé nægilega tekið utan um þessa hugmynd og útskýrt hvað í rauninni er átt við. Er átt við einhvers konar skrifleg álit sem eru þá gefin út í töluröð og birt einhvers staðar eða er þetta einfaldlega heimild til ráðherra til að segja eitthvað? Er verið að segja að ráðherra hafi hér með lagaheimild til að halda ræðu og hafa skoðanir á hlutunum?

Það er erfitt að átta sig á því hvað átt er við en á bls. 44 í greinargerðinni er þó fjallað um þetta. Hér er sem sagt hægt að skilja þetta þannig að þetta eigi að vera birtar leiðbeiningar og hljóti þá að eiga að hafa einhvers konar leiðbeinandi áhrif fyrir stofnanir á málefnasviði ráðherrans til að taka ákvarðanir, eins og ég veit að tíðkast hjá innheimtumönnum ríkissjóðs. Þar eru gefnar út leiðbeiningarreglur um hvernig það eigi allt saman að fara fram og það er þá gert á grundvelli laga. Er hér átt eingöngu við það eða hvernig á þetta eiginlega að fara fram?

Hér er vísað til þess að þetta óbindandi álit hafi mikla þýðingu í stjórnsýslunni í Danmörku og jafnframt sagt að þetta sé ekki nýbreytni í starfsháttum Stjórnarráðsins heldur sé ráðherra alltaf heimilt að láta í ljósi álit sitt á öllum stjórnarmálefnum. Ég næ þessu ekki alveg, frú forseti. Í fyrri setningunni er sagt að þetta sé eitthvað nýtt og eigi að vera skriflegt og vísað til framkvæmdar í Danmörku en hins vegar má skilja þetta þannig að þetta sé eins og ég sagði áðan, ráðherranum einfaldlega heimilt að halda ræðu og hafa skoðun á stjórnarmálefnum. Ég held að það sé erfitt að setja nýmæli sem þessi í lög sem eru óljós og menn vita ekki áður en þeir fara af stað til hvers eru ætluð eða hvernig eigi að halda utan um þau. Það væri ágætt, frú forseti, ef hv. þingmenn sem hlýða á mál mitt og tóku þátt í umræðunum í hv. allsherjarnefnd gætu gefið mér aðeins nánari skilgreiningu á því hvað þetta er. Hvað gerist ef þetta álit ráðherrans reynist fara gegn áliti annars ráðherra? Er það þá forsætisráðherrann sem er yfir ráðherranum sem ræður, er það hans álit sem gengur lengst? Er hægt að afturkalla óbindandi álit? Það á að vera til leiðbeiningar fyrir stjórnvöld en hvað ef í ljós kemur að ráðherrann hefur einfaldlega haft rangt fyrir sér? Hvað á hann þá að gera? Við hljótum öll að eiga rétt á að læra af mistökum okkar. Hvernig fer með slík álit?

Það hefur mjög mikið verið rætt um 2. gr. þessa frumvarps, þ.e. þar sem fjallað er um fjölda ráðuneyta. Hér er gert ráð fyrir því að það sé á valdi forsætisráðherra að ákveða fjölda ráðuneyta, það sé gert með forsetaúrskurði að tillögu forsætisráðherra. Þetta ákvæði hefur valdið töluverðu fjaðrafoki og verið alláberandi í umræðunni. Ég held að við séum svolítið föst í því að horfa á persónur, annars vegar um þetta ákvæði sem hefur verið til umræðu og hins vegar í þeirri sögu af þessu frumvarpi að öllu saman sé stefnt hér fram til höfuðs ákveðnum ráðherra í ríkisstjórninni sem er að sumra mati óalandi og óferjandi í aðalmáli ríkisstjórnarinnar, þ.e. Evrópusambandsmálinu.

Ég held að við séum á villigötum ef við leyfum okkur að tala um málin á þennan hátt. Þá vísa ég til þess sem ég hef sagt fyrr í umræðunni, villigatan er sú að ákveðnir aðilar festast í því að horfa á þetta mál út frá aðeins þessum tveimur atriðum en gleyma heildarmyndinni sem er sú að þessu frumvarpi er ætlað að koma til móts við athugasemdir, sníða af agnúa og styrkja löggjöfina vegna ábendinga í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis fyrst og fremst. Kannski aðalatriðin í ábendingum og tillögum rannsóknarnefndar Alþingis hafi bara gleymst af því að allir eru svo uppteknir við að horfa á einstaka ráðherra, þ.e. hæstv. forsætisráðherra og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þetta er afskaplega sorglegt en engu að síður held ég að þetta sé staðan, a.m.k. blasir þetta svona við mér þegar ég kem að þessu máli og hef ekki tekið þátt í umræðunni í allsherjarnefnd. Ég sé að allsherjarnefnd reynir að klóra í bakkann og kemur með að mörgu leyti ágætar breytingartillögur þar sem reynt er að koma til móts við ýmis atriði sem hafa gleymst hjá forsætisráðuneytinu þegar frumvarpið var samið. Ég held því miður, frú forseti, að þetta mál sé ekki nægilega vel unnið, hér sé viðleitni í rétta átt, reynt að safna saman þeim atriðum sem þarf að fjalla um en ekki hugsað til enda hvernig hlutirnir eiga að virka. Það hefur gleymst að fara yfir listann yfir það hvort verið sé að taka á aðalatriðum. Það eru einfaldlega vinnubrögð, frú forseti, sem ég tel ekki ganga. Þess vegna held ég að mál þetta allt þurfi að fara aftur til vinnslu hjá allsherjarnefnd og ég tel að allsherjarnefnd eigi að leiða það starf að koma þessu frumvarpi í betri búning, hugsa það betur, sérstaklega út frá kaflanum um stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra.

Var ekki aðalmálið eftir hrun að fjalla um hverjir hefðu brugðist eftirlitsskyldum sínum? Var það ekki aðalmálið sem gekk svo langt að það var gerð tilraun til að ákæra fjóra hæstv. fyrrverandi ráðherra á grundvelli ráðherraábyrgðarlaga? Einn þeirra situr nú undir ákæru í landsdómi. Er þá ekki ástæða til að skýra þessar lagaheimildir í staðinn fyrir að taka lítillega fram að þarna séu einhverjar eftirlitsheimildir og segja síðan í greinargerð að þetta sé allt saman lögfesting á núgildandi reglum, að engu þurfi að breyta? Ég held að það vanti töluvert upp á hugsunina og samhengið í því ef sömu hv. þingmenn leggja fram þetta frumvarp og studdu það að menn yrðu ákærðir á grundvelli þess meðal annars að hafa ekki sinnt starfsskyldum sínum fyllilega.

Frú forseti. Það er í grófum dráttum stóri gallinn að mínu mati á þessu frumvarpi.

Síðan ætla ég að leyfa mér í örfáum orðum að fjalla um 2. gr. Önnur mikilvægasta athugasemdin sem birtist okkur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem tekin var síðan upp í skýrslu þingmannanefndarinnar er um tilhneigingu framkvæmdarvaldsins til að ráða öllu og löggjafarvaldsins til að lúffa aðeins. Sú breyting verður á fyrirkomulaginu varðandi skiptingu ráðuneyta að forsætisráðherra á einfaldlega að leggja fram breytingar og það kemur hvergi inn á borð þingsins með hvaða hætti framkvæmdarvaldið kýs að skipta með sér verkum. Ég tel að hún sé þvert á þann anda og þær tillögur sem fram koma í þessum tveim grundvallarplöggum sem ég hef margítrekað vísað til. Það er undarlegt að þetta birtist manni svona í þessu frumvarpi. Það er eins og menn hafi sagt: Jú, við ætlum að byggja þetta frumvarp á þessari skýrslu rannsóknarnefndar og skýrslu þingmannanefndarinnar, leggja það síðan til hliðar og horfa bara á skýrsluna frá starfshópi forsætisráðherra sem segir eitthvað allt annað. Hvernig má þetta vera, frú forseti? Auðvitað eru rök á báða bóga og það er alveg rétt að þetta þekkist í öðrum löndum en við eigum þá ekki að gabba fólk og láta það halda að við séum að vinna frumvarp upp úr þessum tveim skýrslum ef það er ekki verið að því. Ef það er eingöngu verið að vinna frumvarp og breytingar á lögum út frá skýrslu starfshóps forsætisráðherra eiga menn að segja það.

Auðvitað gerði allsherjarnefnd sitt besta til að kíkja yfir þetta mál. Okkur sem sátum í þingmannanefndinni var gefinn kostur á því að lesa yfir frumvarpið áður en nefndin skilaði af sér. Okkur var hins vegar sendur tölvupóstur um það bil kl. 4 á föstudegi og við áttum að skila af okkur áliti, ef við hefðum einhverjar athugasemdir, fyrir mánudagsmorgun þar sem allsherjarnefnd ætlaði þá næst að funda. Ég gerði athugasemdir við þessi vinnubrögð og kvaðst vissulega fús til að liðsinna allsherjarnefnd og fara yfir þessi mál en það gerist hins vegar ekki á handahlaupum. Þess vegna varð ekki af því að ég mætti á fund nefndarinnar.

Ég tel að við eigum að læra það af þessu að við þurfum að gefa okkur betri tíma og ég tel að við eigum jafnframt að læra af þessu að þingið sjálft þarf að taka meira frumkvæði hvað varðar lagasetningu og þá sérstaklega hvað varðar breytingar sem á að gera á grunni og í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég tel að þingið eigi að taka þetta mál að sér. Allsherjarnefnd hefur fulla burði til þess að taka þetta frumvarp inn til sín að nýju og fara betur yfir það, þá sérstaklega þá þætti sem ég hef bent á, og taka sér frumkvæðisvald í því að vera gerandi í því að breyta íslenskri stjórnsýslu frá fyrsta degi en ekki að fá málin matreidd frá framkvæmdarvaldinu. Auðvitað þarf það að vera í ýmsum málum en í þeim málum sem snúa beint að því að leiðrétta löggjöfina á grundvelli þeirra ábendinga og athugasemda sem birtast okkur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis tel ég að þinginu beri skylda til að vinna málin betur, þ.e. meira hjá sér en taka ekki við þeim nánast fullkláruðum frá framkvæmdarvaldinu.

Mig langar að vitna aðeins til skýrslu þingmannanefndarinnar enn á ný sem ég tel að við verðum að hafa í huga þegar við kíkjum yfir þau ákvæði sem hér er lagt til að verði lögfest. Hér segir, með leyfi forseta:

„Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu, verklagi hennar og skorti á formfestu jafnt í ráðuneytum sem sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneytin heyra. Svo virðist sem aðilar innan stjórnsýslunnar telji sig ekki þurfa að standa skil á ákvörðunum sínum og axla ábyrgð, eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.“

Þetta er atriði sem við verðum að hafa í huga í þessari vinnu. Tekst það í þessu frumvarpi (Gripið fram í: Já.) að því er á við þessi lög að koma til móts við þessi sjónarmið?

Síðan er eitt atriði sem fjallað er um í frumvarpinu, upplýsingagjöf frá embættismönnum til ráðherra. Ég tel að við þurfum að skoða mjög vel hvort þeim athugasemdum sé nægjanlega mætt í frumvarpinu. Auðvitað er erfitt að lögfesta út í hörgul með hvaða hætti samskipti eiga að vera. Auðvitað má lagaumgjörðin ekki vera þannig að það sé óvinnandi vegur að vinna störfin vegna þess að við komumst hreinlega ekki yfir það að skrá niður öll þau samskipti sem menn eiga í, skrá niður hvaða upplýsingar þeir hafa haft á hvaða tíma o.s.frv. en það þarf að vera agi á vinnubrögðunum í stjórnsýslunni og það þarf að vera meiri formfesta.

Miðað við umræðuna sem hefur verið hérna um þetta mál hefur afskaplega lítill tími farið í að ræða þessi atriði. Komum við nægjanlega til móts við þessa hörðu gagnrýni á skort á formfestu í stjórnsýslunni? Hvað finnst hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna um það? Hvað finnst hv. formanni Framsóknarflokksins um þessi atriði? Ég hjó eftir því í þeirri ágætu ræðu sem sá ágæti þingmaður, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hélt í gær að ekki fór mikill hluti tímans í þessi atriði. Engu að síður stóðum við öll hér fyrir akkúrat ári og töluðum um að stóra verkefnið sem fyrir okkur lægi í þinginu væri að laga þessi atriði, reyna að koma á meiri festu og aga í stjórnsýslunni.

Af því að ég minntist aðeins á 2. gr. þar sem forsætisráðherra ákveður hvaða ráðuneyti eru til og hver ekki má líka hugsa það út frá þessu sjónarhorni. Ef það er alltaf allsendis óvíst með hvaða hætti ráðuneytum sé skipt, er þá mikill agi og formfesta samfara slíku fyrirkomulagi? Þá vita menn væntanlega ekki hvort þeir eru að koma eða fara nema hugsanlega fjögur ár í senn en það þarf samt ekki að vera að það séu fjögur ár, það getur verið styttri tími. Þá vita þeir aðilar sem þurfa að hafa samskipti og eiga í samráði við ráðuneytin ekki nema í stuttan tíma í senn hvernig umhverfið í raun og veru er. Er þetta gott eða slæmt? Ég átta mig ekki alveg á því hverjir kostirnir við þetta eru nema, jú, það kom fram hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur í andsvari áðan að þetta væri mjög liðug stjórnsýsla. Það er kostur, það er alveg rétt. En á kostnað hvers er hún? Er sá kostur þyngri á metunum en sá að hafa formið fastara og umhverfið stöðugra? Það er stór spurning sem þarf að ræða í þessari umræðu og ég tel hana alls ekki fullrædda. Í gærkvöldi vorum við — ég tek það til mín af því að ég var á mælendaskrá — sökuð um að vera með samhengislaust þvaður í umræðunni og þá verð ég bara að vera ósammála því.

Mér finnst afskaplega margar spurningar vakna þegar ég les þetta allt saman yfir, þar á meðal nefndarálitin. Þetta er ágætisnefndarálit frá meiri hlutanum og bara ágætisyfirlit yfir málið. Engu að síður er málið ekki fullrætt. Og í athugasemdum eins og á bls. 7 í meirihlutaálitinu þar sem fjallað er um stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra kemur til dæmis fram að í umsögnum sem bárust um málið hafi verið sett fram nokkur gagnrýni á ákvæði þessa kafla sem hafi meðal annars lotið að því að þau væru ekki nægilega skýr og of matskennd. Þau virtust „kippa stoðum undan málskotsheimild borgara til hlutaðeigandi ráðuneytis samkvæmt stjórnsýslulögum“. Ég sé þess samt ekki stað, frú forseti, að allsherjarnefnd hafi breytt þessum kafla. Síðan segir berum orðum í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi hæstv. forseta:

„Þannig er í reynd ekki verið að leggja til neinar breytingar á gildandi rétti heldur er einungis verið að skýra almennar yfirstjórnarheimildir ráðherra sem eru óskráðar og virðast ekki hafa verið nægilega skýrar.“

Ég geri ráð fyrir því að fleiri hv. þingmenn en ég, sem eru á mælendaskrá í dag, brenni í skinninu eftir að ræða akkúrat þessi atriði. Af hverju eru ekki lagðar til neinar breytingar á gildandi rétti ef við vorum öll sammála um að ábendingar sem birtust okkur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis væru þess eðlis að hér þyrfti að breyta lagaumgjörðinni? (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég tel að ég þurfi að óska eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá.