139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir svar hans. Fljótt á litið lítur þetta út eins og hæstv. forsætisráðherra, því að þetta er lagt fram í hennar nafni, líti svo á að embættismannakerfið sé hreinlega mjög spillt úr því að það er komið í mörgum lagagreinum í frumvarpsdrögum að forsætisráðherra þurfi sjálfur að siðvæða Stjórnarráðið. Mér finnst það niðurlægjandi fyrir þá rúmlega 500 starfsmenn sem vinna nú þegar í Stjórnarráðinu og einkennilegt að einum aðila skuli vera falin siðvæðing samkvæmt frumvarpi þessu. Siðferðismörk okkar eru með ólíka þröskulda. Það sem hv. þingmanni finnst kannski í lagi finnst mér ekki í lagi og öfugt. Þess vegna er skrýtið að siðvæðing skuli vera falin hæstv. forsætisráðherra en það er svo sem alveg í takt við allt annað sem kemur frá þessari ríkisstjórn. Talið er að allir séu siðspilltir (Forseti hringir.) þannig að nú skal grípa í taumana og hæstv. forsætisráðherra ætlar að fara þar fremst í flokki.