139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:47]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég stend við allt sem ég sagði í ræðu minni áðan. Verkin dæma sig sjálf hjá hæstv. fjármálaráðherra, það þarf ekkert að deila við mig um það, hann kemur alveg örugglega til með að eiga nóg með að deila við sinn eigin heimavöll í þeim efnum.

Varðandi þann orkufreka iðnað og þau mál sem ég reifaði hér — ég notaði þetta tækifæri til að fara yfir það í hvað við ættum að eyða tíma — var ég bara að draga fram þær staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir. Meðal annars kom ég inn á það sem tekið er fyrir í skýrslu Landsvirkjunar, hversu mikilvægur orkufrekur iðnaður hefur verið fyrir uppbyggingu þessa lands. Og það er að skella skollaeyrum hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna þegar þeir kynna sér málin ekki betur á þeim vettvangi en að tala um að einhver slys hafi gerst. Staðreyndin er sú að þetta hafa verið einhver bestu skref sem stigin hafa verið fyrir íslenska þjóð. (Forseti hringir.) Nú eru tækifærin til staðar og Landsvirkjun hefur bent á það í skýrslu sinni hversu mikilvægt það er að fara af stað. (Forseti hringir.) Í þetta eigum við að eyða tíma okkar, virðulegi forseti, en ekki karp um mál sem skipta ekki (Forseti hringir.) miklu.