139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og yfirgripsmikla ræðu. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði um að styrkja þyrfti Alþingi. Hv. þingmaður hefur talað fyrir því, og flutt um það frumvarp, að stofna lagaskrifstofu Alþingis. Ég teldi það mikilvægt skref til framfara fyrir löggjafarvaldið. Hv. þingmaður kom líka inn á það sem ég hef oft rætt í þessum ræðustól, sem eru svokallaðar reglugerðarheimildir ráðherra. Mín skoðun er sú — ég heyri það á hv. þingmanni, hafi ég skilið hana rétt, að hún sé sammála mér um það — að verið sé að framselja vald frá Alþingi til einstakra ráðherra. Því miður hafa einstakir ráðherrar að mínu mati misfarið með það valdsvið sem þeir hafa. Hæstv. ráðherrar hafa sett reglugerðir sem hafa haft miklar afleiðingar fyrir fólkið í landinu og eins atvinnuvegina. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort ég hafi ekki örugglega skilið hana rétt, þar sem hún hefur áhyggjur af þessu framsali valds.

Eins langar mig að spyrja hv. þingmann, þar sem hún á sæti í allsherjarnefnd, hvort hún hafi skoðað sérstaklega það sem kemur fram í 4. gr. frumvarpsins, sem ég er dálítið hugsi yfir. Þar segir að komi upp vafi eða ágreiningur um það undir hvaða ráðuneyti stjórnarmálefni heyrir skuli hæstv. forsætisráðherra skera úr um það: Getur verið að við séum að fara að setja lög og menn hafi áhyggjur af að hlutir af þessu tagi geti komi upp, þ.e. að ekki sé nægileg formfesta í því hvernig Stjórnarráð eigi að virka, að nefna þurfi það sérstaklega í sjálfum lögunum að hæstv. forsætisráðherra á hverjum tíma skeri þá úr um það hvar viðkomandi málefni eigi að vera og í hvaða ráðuneyti. (Forseti hringir.)