139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:33]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir ágæta og málefnalega ræðu þar sem hún fór yfir ýmis atriði sem hún vill fá svör við og ég geri ráð fyrir að formaður allsherjarnefndar veiti þau svör í lokaræðu sinni í umræðunni.

Sum þeirra eru reyndar þannig að hv. þingmaður ætti í raun og veru þegar að hafa fengið svör við þeim í greinargerðinni, þ.e. því sem nefndin hefur ekki breytt. Meiri hluti nefndarinnar flytur engin sérstök rök fyrir því sem hann hefur ekki breytt. Þar verður að leita í greinargerðina.

Um óbindandi álit er fjallað á sínum stað í athugasemdinni um þá grein á einni og hálfri síðu, og ég vísa hv. þingmanni þangað. Ég veit ekki meira um það en sá sem greinargerðina skrifaði. Ég tek hins vegar eftir því að það ákvæði er beint sótt til Danmerkur og er almennt orðað en eykur stjórnfestuna í störfum ráðuneytanna.

Annar misskilningur sem ég vil endilega koma í veg fyrir strax, sem ég skil ekki hvernig hægt er að lesa út úr frumvarpinu — auðvitað er frumvarp frumvarp og ekki lýsing blaðamanns eða framsetjara á því sem koma á fram — er sá að til séu yfirráðherrar og undirráðherrar. Það er ekki þannig. Ráðherrarnir eru jafnsettir og þeir hafa skrifstofur sem heita ráðuneyti. Það er auðvitað hugsanlegt, eins og mér skilst að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hafi sett fram, að ráðuneyti haldist eitt að formi til eða nafni en skrifstofurnar eru þá tvær, a.m.k. er ábyrgð ráðherranna ef þeir eru tveir, einn með málefni fatlaðra og hinn með önnur velferðarefni, alveg skýr í þeim málaflokki á þeirri skrifstofu sem þeir hafa.

Hér er engin breyting nema sú að skýra þetta enn frekar og skerpa ábyrgðarsvið hvers ráðherra, sem full þörf er á eins og hv. þingmaður nefndi dæmi um úr hruninu.