139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Það fór töluverður tími í að ræða hvernig styrkja mætti Alþingi, sem er ósköp eðlilegt þegar mörgum okkar finnst að frumvarpið veiki þátt Alþingis.

Í frumvarpinu er rætt um að fjölga aðstoðarmönnum og að það taki gildi eftir næstu alþingiskosningar vegna fjárhagsástands og alls þess háttar. Talið er að þetta kosti um 100 milljónir samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins. Ég held að nær sé að þingmenn og Alþingi hugsi hvort ekki sé rétt að styrkja löggjafarvaldið eða í það minnsta að verja það sem löggjafarvaldið hefur í dag, vegna þess að að því er sótt að því er mér finnst úr býsna mörgum áttum. Ég vil t.d. nefna þegar iðnaðarráðherra ákvað nýverið að fara fram hjá Alþingi. Það hefur tíðkast að Alþingi eða stjórnmálaflokkarnir tilnefni í stjórn Byggðastofnunar, en framkvæmdarvaldið ákvað að taka þetta til sín og sleppa löggjafanum.

Hv. þingmaður nefndi athyglisverðan punkt sem ég held að við eigum að taka mjög alvarlega, þ.e. að Alþingi semji frumvörpin og flytji í raun starfsfólkið úr ráðuneytunum til Alþingis. Sér hv. þingmaður það fyrir sér að einhvers konar beiðni komi frá framkvæmdarvaldinu, beiðni eða ábending frá t.d. velferðarráðherra um að nú þurfi að breyta lögum og hann óski eftir því að Alþingi setji í gang vinnu við að breyta frumvarpi eða semja nýtt frumvarp, og síðan þegar Alþingi hefur lokið verkefni sínu að semja drög að frumvarpi fái ráðuneytið eða framkvæmdarvaldið að líta yfir það og svo væri það framhald á vinnu Alþingis að klára málið?