139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna.

[15:55]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal auglýsir eftir könnun á stöðu heimilanna. Ég vil halda því fram að sú könnun sé óþörf því að hérna hef ég í höndum mynd sem segir meira en þúsund orð og hundrað kannanir. Hún birtist í Fréttablaðinu í gær og er eftir snilldarteiknarann Halldór Baldursson. Með leyfi forseta, langar mig til að sýna þessa mynd.

Hérna er venjulegt fólk, hjónin Jóna Jónsdóttir og maðurinn hennar Jón Jónsson, og þau velta á undan sér snjóbolta, ansi þungum þó fyrir þau, sem er eignamyndun á fasteignamarkaði. Á eftir þeim kemur rúllandi margfalt stærri snjóbolti sem er skuldamyndun á fasteignamarkaði og mun innan skamms kremja þessi ágætu hjón til dauðs. Svoleiðis er það. (Gripið fram í.) Það þarf enga könnun til að athuga þetta. (PHB: Hvað gerir ríkisstjórnin?) Ekki spyrja mig hvað ríkisstjórnin gerir, Pétur, spurðu einhvern annan að því.

Það sem hefur gerst hjá venjulegu fólki (Gripið fram í.) er að kaupmáttur launa þeirra hefur lækkað og verðmæti eigna þeirra hefur minnkað. Aðeins einn hlutur hefur haldið verðgildi sínu, aðeins einn hlutur er verðtryggður á Íslandi og það er lánsfjármagn. Það er óhæfa, óréttlæti, brot á mannréttindum, brot á jafnræðisreglu, það er brot á heilbrigðri skynsemi og öllu siðferði. Þetta verður að koma í veg fyrir áður en öll hjón á landinu sem hafa reynt að standa í skilum við bankana kremjast til dauðs eins og þau Jón og Jóna munu gera.

Bankarnir á Íslandi eiga sinn hlut í þessu. Þeir koma fram af fullkominni óbilgirni við venjulegt fólk. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Megnið af þeim lánum sem hefur verið afskrifað hefur verið hjá lögaðilum, fyrirtækjum, aðeins örlítið brot hefur tilheyrt einstaklingum. Ég sjálfur, (Forseti hringir.) sem er fyrirmyndarviðskiptavinur og hef aldrei lent í vanskilum, hef farið til míns viðskiptabanka, sem er Arion banki, (Forseti hringir.) og beðið þann banka um að ákveða hvort hann sé þjónustustofnun eða blóðsugubanki (Forseti hringir.) og ræningjabæli. (Forseti hringir.) Þið getið ímyndað ykkur niðurstöðuna.