139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:09]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mitt mat að öll sjónarmið hafi meira og minna komið hér fram og að við séum komin í málþóf í þessu máli. Það var hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem sagði hér í gærkvöldi, og ég held að hv. þm. Birgir Ármannsson hafi verið í salnum líka enda hefur hann verið duglegur að fylgjast með í þinginu, að það væri bara hundleiðinlegt að standa í þessu málþófi — þetta var í gærkvöldi kannski um tíu- eða hálfellefuleytið — þetta væri bara hundleiðinlegt en þetta væri til að skapa samningsstöðu. Hver sér það ekki? Hér er stundað málþóf í þessu máli, það sjá allir. Við erum ekki fædd í gær. Og það breytist ekkert þó að hv. þm. Birgir Ármannsson telji sig ekki hafa fengið svör við spurningum sínum, hér er málþóf, menn eru að skapa sér samningsstöðu vegna þessa máls og vegna gjaldeyrishaftanna. Þess vegna stöndum við hér í endalausum ræðum og endalausum andsvörum og almenningur sem fylgist með þessum andsvörum, fólk úti í bæ, talar um málþóf, það sér þetta. Það sjá þetta allir nema hv. þm. Birgir Ármannsson, hann sér þetta ekki.