139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[19:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég verð að taka undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram frá þingflokksformönnum tveggja flokka um það að þingflokksformenn virðast ekki vera að funda með forseta þingsins um hvernig dagskráin muni þróast. Í ljósi þeirrar umræðu sem hér fór fram fyrr í dag, eftir ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur þar sem hæstv. forsætisráðherra kom í pontu og tók undir áhyggjur af því að oddvitar stjórnmálaflokkanna væru að ákveða framkvæmd mála í þinginu, tel ég rétt að forseti þingsins upplýsi okkur um hvort slíkur fundur oddvita stjórnmálaflokkanna standi yfir og þar sé verið að ræða dagskrá þingsins eða hvort það sé enn þá þannig að hæstv. forseti muni funda þingflokksformönnum og ræða þessi mál. Ég tók eftir því í gær í umræðu um fundarstjórn forseta að hv. þingmenn Þuríður Backman og Jónína Rós Guðmundsdóttir, sem gegna starfi þingflokksformanna (Forseti hringir.) stjórnarflokkanna, höfðu þær áherslur að hér ætti að ræða mikilvæg mál sem samstaða væri um (Forseti hringir.) og reyna að afgreiða þau.