139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í andsvör við flokksbróður minn, hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, en ég bendi á að samkvæmt fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er aukakostnaðurinn við alla þessa aðstoðarmenn og ráðgjafa um 100 milljónir. Samkvæmt breytingartillögu frá meiri hluta allsherjarnefndar er þó heldur betur búið að auka það og fjölga aðstoðarmönnum í 23, þannig að nú liggur fyrir að það kostar 130 milljónir á ári að hafa aðstoðarmenn og ráðgjafa, ekki bara 100 milljónir. Ég tek því undir áhyggjur þingmanna sem talað hafa hér að það er sífellt verið að færa meiri peninga og völd til Reykjavíkur. Ég er þingmaður fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður en ég er líka þingmaður fyrir landið allt. Eyðsla framkvæmdarvaldsins sem birtist í mörgum frumvörpum er til háborinnar skammar.

Ég hef farið yfir það áður að í þeim frumvörpum sem lögð hafa verið fram á þessu þingi og því síðasta — nú er þessu þingi brátt að ljúka — er gert ráð fyrir endalausum kostnaðarauka. Þá er ég aðallega að vísa í þær tilskipanir og reglugerðir sem við þurfum að taka upp vegna þess að naumur meiri hluti Alþingis gekk svo langt að leggja inn aðildarumsókn að Evrópusambandinu, sumir kalla það aðlögunarferli. Þá þarf að uppfylla ýmsar kröfur Evrópusambandsins með lögleiðingu reglugerða og tilskipana. Oftar en ekki hefur það í för með sér gríðarlegan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð og fjölgun starfa, ekki þó á hinum almenna vinnumarkaði heldur í opinbera geiranum. Verið er að kratavæða Stjórnarráðið og stjórnsýsluna, tvö til fjögur stöðugildi bætast við við hverja frumvarpssamþykkt og fara beint inn í undirstofnanir ríkisins, sem þýðir það eitt að ríkissjóður er að þenjast út.

Ég sló á tölu um daginn hver kostnaðarauki ríkissjóðs væri vegna umsóknarinnar, þá taldi ég með lögleiðingu á þróunarsjóði EFTA sem var samningsbundinn áður en á einum næturfundinum fyrir jólin var viðauki við EES-samninginn samþykktur sem hafði í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð upp á 7 milljarða á sex ára tímabili. Það var lögleitt í þinginu eins og að drekka vatn og komu ekki miklar mótbárur gegn því.

Svo er það allur kostnaðurinn við umsóknarferlið. Af því hlýst ferða- og embættiskostnaður þannig að að lokum er aðildarumsóknin farin að hlaupa á tugum milljarða á meðan ekkert er gert fyrir fólkið sem skapar skatttekjurnar, fólkið sem er á hinum almenna vinnumarkaði. Ekki hlúð að atvinnusköpun eða skapað hér umhverfi til þess að almenni vinnumarkaðurinn geti tekið við sér. Skatttekjur opinberra starfsmanna fara í hringrás innan kerfisins og skila ekki raunverulega þeim hagvexti sem við bíðum eftir að verði með aukinni áherslu ríkisstjórnarinnar á atvinnumál.

Framsóknarflokkurinn hefur skýra atvinnumálastefnu. Við höfum lagt fram tillögur varðandi atvinnumál en því miður er þinginu stjórnað af samfylkingarfólki og eins og allir vita kemur forseti Alþingis úr ríkisstjórnarliðinu þannig að framkvæmdarvaldið hefur fullt vald á Alþingi og ræður því hvaða mál koma á dagskrá.

Hin einföldustu þjóðþrifamál sem við framsóknarmenn leggjum fram og viljum knýja í framkvæmd fást ekki rædd í þinginu, ekki frekar en þau góðu mál sem við höfum lagt til til bjargar heimilunum.

Ég fann það í dag eftir utandagskrárumræður sem haldnar voru að frumkvæði formanns Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að það komu mikil viðbrögð við þeirri umræðu. Hún fjallaði um niðurfellingu skulda heimila hjá fjármálastofnunum. Ég fékk óteljandi tölvupósta og SMS-skilaboð þar sem við vorum hvött til að halda þeirri baráttu okkar áfram að reyna að koma skuldugum heimilum til hjálpar. Þar gafst hálftími til að ræða þetta þjóðþrifamál — hálftími var náðarsamlegast veittur af tíma Alþingis frá þessu óþurftarmáli, stjórnarráðsfrumvarpi sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að koma í gegnum þingið í stað þess að sýna það í verki að hún geti hugsanlega unnið fyrir fólkið í landinu en ekki fyrir fjármálastofnanir og banka. Það er sorgleg staðreynd, herra forseti.

Ég kalla eftir forgangsröðun einu sinni enn hjá þessari ríkisstjórn. Það mál sem nú er til umræðu er algjörlega óþarft og væri eins hægt að pakka því saman og nú geyma til októberþingsins.

Það má heldur ekki gleyma því í umræðunni að bera saman Stjórnarráðið og Alþingi, því að í þeim skýrslum sem vísað er til í frumvarpinu, skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar, er klifað á því að styrkja Stjórnarráðið. Hinn helmingurinn í skýrslunum er ekki notaður. Þá er ég að tala um að fram kemur með afgerandi hætti að fyrst og fremst skuli styrkja stoðir Alþingis því að hér byrja öll mál með lagasetningu. Sú lagasetning á að sjálfsögðu að vera eins vönduð og kostur er en því miður er því skrefi sleppt í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, hlaupið er yfir styrkingu Alþingis og peningum dælt í Stjórnarráðið, beint undir framkvæmdarvaldið, eins og það hafi ekki nóg fyrir.

Mér finnst við hæfi að minnast á það aftur að Stjórnarráðið tekur til sín 6 þús. milljónir á ári í rekstur ráðuneytanna á meðan Alþingi hefur eitt þúsund milljónir.

Það eru sláandi staðreyndir, sérstaklega í ljósi þess að starfsmenn Stjórnarráðsins eru rétt rúmlega 500 talsins. Það er mikill rekstrarkostnaður og enn skal gefið í, enn skal bætt við aðstoðarmönnum og ráðgjöfum.

Ég ætla líka að minna á eitt til að taka upp hanskann fyrir landsbyggðina; sameining minni kjördæma í gríðarstór þrjú kjördæmi á landsbyggðinni hafði í för með sér mjög mikinn sparnað þegar þessi velferðarstjórn tók við. Til dæmis voru þeir aðstoðarmenn sem landsbyggðarþingmenn höfðu skornir niður. Hvers lags ójafnvægi er hjá þessari stjórn? Það sjá það allir að það gengur ekki upp.

Hæstv. forsætisráðherra hefur komið af og til inn í umræðurnar og byrst sig og farið með fleipur oft og tíðum. Við þekkjum stjórnunarstílinn. Hv. forsætisráðherra var einu sinni félagsmálaráðherra í ákveðinni ríkisstjórn og þá hugsaði hún um eitthvað annað en fjármagnseigendur, þá hugsaði hún um þá umbjóðendur sem hún vann fyrir, þá sem eiga bágt í samfélaginu. Þessi sami ráðherra beitti sér mjög þegar hún var óbreyttur þingmaður fyrir því að verðtrygging á skuldum yrði afnumin. Hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, er nú búin að vera forsætisráðherra í rúmlega tvö ár, hún hefur setið í ríkisstjórn í rúmlega fjögur ár. Það er eins og þessi atriði hafi þurrkast úr minni hennar þann dag sem hún steig í forsætisráðherrastól.

Ég vil að þingmenn og landsmenn muni það með mér að hæstv. ráðherra hefur haft rúm fjögur ár til að beita sér í þeim málum sem hún var baráttukona fyrir áður fyrr.

En svona gerist þetta nú gjarnan, fólk skiptir um skoðun um leið og það sest á þá stóla sem eru í beinni röð fyrir aftan mig.

Það er líka rétt að benda á það einu sinni enn því að það virðist falla í gleymskunnar dá að hæstv. forsætisráðherra gegndi mjög ábyrgðarmiklu ráðherraembætti á haustdögum 2008 þegar allt hrundi. Ég verð líka að minnast á að hæstv. utanríkisráðherra sat í þessari sömu hrunstjórn 2008. Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra eru forsvarsmenn okkar út á við. Vantar ekki eitthvert traust á alþjóðavettvangi á þeim sem eru til endurbrúks í þessari velferðarríkisstjórn? Ég bara spyr.

Það er áhugavert að það skuli vera með þessum hætti en það skýrir kannski að hér er engin framþróun og að hér er enginn vilji til að forgangsraða eða vinna fyrir þá sem mest þurfa á því að halda. Forgangsröðunin verður að vera skýr. Við verðum að leggja áfram áherslu á málefni heimilanna og fjölskyldnanna. Við verðum að fara að byggja upp atvinnu. Við verðum að hætta karpi um tilgangslaus mál. Það er í hendi hæstv. forsætisráðherra, það er einungis hennar í valdi. Hún ætti að pakka saman þrjósku sinni og fara (Forseti hringir.) að ræða mál sem skipta máli.