139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:58]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tek undir það sem hún sagði í lok ræðu sinnar um forgangsröðunina hjá hæstv. ríkisstjórn, að á meðan engin atvinnuuppbygging á sér stað, fólk flytur úr landi eða gengur um atvinnulaust og búið er að eyða um 80–90 milljörðum í atvinnuleysisbætur ræðum við svona gæluverkefni hæstv. forsætisráðherra.

Hv. þingmaður kom inn á það í upphafi ræðu sinnar út af orðaskiptum okkar hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar að það hefði komið fram eða hún mæti það svo að kostnaður við þetta yrði um 130 milljónir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um vinnubrögðin við frumvarpið. Nú leggur hv. allsherjarnefnd til breytingartillögu um að lögin taki strax gildi gagnvart ákvæðinu um aðstoðarmennina þar sem þeim verður fjölgað, en það kemur ekki fram í tillögunni hvað þetta muni þýða. Það er því ekki gott fyrir hv. þingmenn sem ekki eiga sæti í allsherjarnefnd að átta sig á kostnaðinum. Mér finnst þetta enn ein staðfestingin á því að í raun sé engin virðing borin fyrir kostnaðinum. Á sama tíma og verið er að segja upp fólki í heilbrigðisstofnunum, Landspítala og fleiri stöðum, er eins og þetta skipti engu máli.

Síðan vil ég líka spyrja hv. þingmann um eitt þar sem hv. þingmaður nefndi réttilega þann mikla kostnað sem er við aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það hefur komið fram á fundum hv. fjárlaganefndar og í andsvörum og fyrirspurnum að það er eins og að aldrei megi ræða um þennan kostnað, það er alltaf verið að reyna að fela hann, það má ekki segja þjóðinni hvað hann er mikill. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún geti tekið undir það, hvort hún deili þeirri skoðun með mér að verið sé að fela kostnaðinn í stjórnkerfinu, kostnaðinn við aðildarumsókn að Evrópusambandinu, af því að ekki megi segja þjóðinni hvað verið er að eyða og bruðla peningum í á meðan (Forseti hringir.) skorið er niður alls staðar annars staðar í þjóðfélaginu.