139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:12]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það var merkilegt að hlusta á skýringar hv. þm. Þuríðar Backman við athugasemdum okkar þingmanna, að hér hafi hv. formaður allsherjarnefndar setið og svarað spurningum og að þeim spurningum sem hér hafa verið settar fram hafi verið málefnalega svarað.

Á þeim stutta tíma sem liðinn er síðan hv. þingmaður flutti ræðu sína reyndi ég að muna nokkur atriði, nokkur svör, sem við höfum fengið. Frá hv. þm. Róbert Marshall fengum við þá einkunn að við værum með innihaldslaust þvaður. Frá hæstv. forsætisráðherra fengum við þá einkunn að þetta væri bull og vitleysa. (Forseti hringir.) Frá hæstv. utanríkisráðherra að við værum talíbanar. Og frá hv. þm. Merði Árnasyni (Forseti hringir.) fékk hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson þá einkunn að hann væri geðklofa í málflutningi sínum. Þetta er (Forseti hringir.) hinn málefnalegi grunnur sem þingmaðurinn lýsti.