139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Sá atburður gerðist hér fyrir matarhlé … [Símhringing.] Afsakið, það þurfti að fjarlægja síma úr salnum.

Fyrir matarhlé gerðist það að ekki var orðið við þeirri ósk að kalla ráðherra í salinn, og ég og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason fórum fram á að gert yrði fundarhlé á meðan ráðherrar hefðu tíma til að koma og setjast í sæti sín. Á það féllst forseti þingsins ekki og vísaði þar í reglu sem gengur út á að forseti geti ekki stoppað fund og gert fundarhlé. Nú hafa reyndir þingmenn sagt mér að það tíðkaðist mjög áður fyrr að þegar beðið var eftir ráðherrum, þeir voru jafnvel sóttir heim til sín, var gert fundarhlé. Hv. þm. Kristján Möller kom svo á eftir okkur fram í matsalinn og sagði að það væri ómögulegt. Ég vil því koma hér upp og ítreka það, frú forseti, að forseti hefur fulla heimild til að stöðva fund þar til þeir ráðherrar (Forseti hringir.) sem beðið er um, koma til umræðunnar og setjast í sæti sín til að hlusta á (Forseti hringir.) ræður og svara spurningum.