139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Haka við í kladdanum — já, ég held að þetta sé eitt af þeim málum sem þarf að haka við í kladdanum. En ég held hins vegar að það séu mun alvarlegri mál sem ríkisstjórnin er að leika sér með á nákvæmlega sama hátt. Hún vill geta hakað við mál í kladdanum svo að hún geti sagt: Já, við breyttum ákveðnum málum.

Ég er ekki síst með fiskveiðistjórnarkerfið í huga þar sem alger umbreyting ríkisstjórnarinnar, stefna hennar í sjávarútvegsmálum, hefur leitt til þess að við sjáum ekki neinar fjárfestingar í sjávarútveginum á síðustu þremur árum eða svo. Óvissan í greininni er alger. Þetta er grunnatvinnuvegur þjóðarinnar, eins og við þekkjum, og það er glapræði að vera að hringla með stefnu í þeirri atvinnugrein, þegar við erum eina landið í heiminum þar sem sjávarútvegurinn er ekki ríkisstyrktur, er arðbær, sjálfbær — og þá hagar ríkisstjórnin sér með þessum hætti.

Já, ég stend fast við það sem ég sagði áðan. Þetta er eitt af þessum málum sem forsætisráðherra vill geta hakað við og stært sig af á hátíðarstundum innan síns flokks. Þetta er sem sagt til heimabrúks.