139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

704. mál
[11:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var eitt af því sem ég nefndi í ræðu minni. Það kom mjög skýrlega fram að ég óttaðist að þegar menn taka út sparnaðinn hverfi þessi eign sem ekki er aðfararhæf, þ.e. ef menn verða gjaldþrota eftir að þeir eru búnir að taka hann út er eignin farin. Ég kom inn á það og einnig að þetta minnkar sparnað.

Ég benti líka á að í fyrri breytingartillögum hefði ég komið með hugmyndir um að menn gætu tekið út alla eign sína og skuldajafnað, en þá yrði að fara fram mat á því að þeir mundu örugglega ekki lenda í gjaldþroti eftir aðgerðina, úttektin mundi bjarga þeim frá gjaldþroti. Hugmyndin var einmitt sú að koma í veg fyrir að eignin tapaðist í gjaldþroti eftir aðgerðina. Ég tók fram í ræðu minni að ég væri á móti báðum þessum atriðum og gæti ekki greitt atkvæði með tillögunni vegna þessa. Hins vegar tel ég að þetta geti verið ágætt fyrir fólk til að ráða við greiðslubyrðina að einhverju leyti og þess vegna mun ég heldur ekki greiða atkvæði gegn þessu. Ég mun sitja hjá.