140. löggjafarþing — 1. fundur,  1. okt. 2011.

kosning í fastanefndir og alþjóðanefndir skv. 13., 14. og 35. gr. þingskapa.

[12:40]
Horfa

 (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við ákvörðun um skipan í nefndir gaf ég kost á mér valkvætt í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, í allsherjar- og menntamálanefnd og í atvinnuveganefnd. Til vara nefndi ég utanríkismálanefnd. Ég gaf enn fremur kost á mér í Vestnorræna ráðið.

Ég gaf ekki kost á mér í umhverfis- og samgöngunefnd og ég er hér settur á lista að mér forspurðum. Ég lét hv. þingmenn Kristján Möller og Árna Þór Sigurðsson vita af þessari ákvörðun minni en engu að síður hafa þeir að mér forspurðum sett mig í þessa nefnd og ég afþakka þá setu. Ég tel reynslu minni og þekkingu best borgið í þágu þjóðar og þings með því að sitja í einhverri af þeim þremur nefndum sem ég nefndi fyrst, þ.e. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, atvinnuveganefnd, sem ég hef starfað lengi í, og í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég óska því eftir því að nafn mitt verði dregið af lista yfir nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd.